141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ríkissjóður innleysir arð, eins og úr Landsbankanum, er ég sammála hv. þingmanni um það að við eðlilegar kringumstæður ætti að nota þá fjármuni til að greiða niður skuldir, en það mætti líka nota þá til að ráðast í verkefni sem örva hagvöxt meira en sem nemur vaxtabyrðinni af því fjármagni sem ríkissjóður skuldar. Ég met það svo, ef ég hef skilið hv þingmann rétt, að hann sé sammála mér um það að þau verkefni sem ríkisstjórnin ætlar að veita þessa fjármuni í séu ekki til þess fallin að efla hér hagvöxt umfram vaxtabyrðina af þeim skuldum sem ríkissjóður er að glíma við. Er þá ekki miklu eðlilegra við þessar kringumstæður (Forseti hringir.) að taka út þau verkefni sem ekki uppfylla þessi skilyrði og nota fjárhæðina til að greiða niður skuldir ríkissjóðs?