141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna hér áðan, sem var að mörgu leyti ágæt. Ég hef áhuga á fyrri hluta ræðunnar, þ.e. samræðunni og rökræðunni sem þarf að fara fram um fjárlög.

Fjárlagafrumvarpið var lagt fram um það bil þrem vikum fyrr núna en áður. Fyrsta umræða þess var, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, með öðru sniði en áður hefur verið. Það er verið að reyna að þróa þetta inn á nýjar brautir þannig að umræðan verði markvissari og skýrari og að þeir sem standa utan fjárlaganefndar geti gengið að sínum málaflokkum, skulum við segja, þegar þeir eru til umræðu hverju sinni og ráðherrar til svara. Eftir það fer málið til þingsins og fjárlaganefnd fer að fjalla um það.

Fjárlaganefnd hefur haft lengri tíma nú en áður til að fjalla um fjárlagafrumvarpið og rýmri tíma. Hún hefur haft önnur verkefni með höndum, þ.e. færri smáverkefni, en áður, samanber breytingar sem við höfum verið að innleiða í fjárlaganefnd, að mörgu leyti til góða, að flestu leyti held ég.

Fjárlaganefnd var einnig gefinn lengri tími núna en oftast áður til að fara yfir breytingartillögur sem ríkisstjórnin lagði fyrir nefndina. Meðal annars var veittur sérstakur vikufrestur varðandi 2. umr. til að nefndin hefði aðeins rýmri tíma til að fara yfir þessar umfangsmiklu tillögur — þó að þær séu kannski ekki í krónum og aurum talið það sem mun hreyfa fjárlagafrumvarpið mikið til voru þær umfangsmiklar að fjölda.

Samkvæmt þingsköpum, sem við samþykktum fyrr á árinu, meðal annars til að bæta verklag í fjárlaganefnd, segir að stefna skuli að því að ljúka 3. umr. fjárlaga í fyrstu viku desembermánaðar. Samt erum við hér nú og erum að byrja fjórða dag umræðunnar um 2. umr. fjárlaga. (Forseti hringir.) Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því? Er þingið að bregðast sínum eigin tillögum eða teygja þessa umræðu, núna í fjóra daga, og fresta þannig 3. umr.?