141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði hér að lokum að kreppunni væri ekki lokið eða orðaði það einhvern veginn svo. Ég hef ekki heyrt hv. þingmann halda því nokkurs staðar fram að henni sé lokið. Það er í rauninni ágætt að heyra og sjá að menn telja að viðbrögðum við kreppunni geti mögulega verið lokið og eftir sé þá einhver hagræðing eða lagfæring á öllu batteríinu. Við verðum þá að sjá til hvort það sé þannig. Ég hef samt enn þá áhyggjur af því að það dugi ekki til.

Það var annað sem hv. þingmaður kom inn á varðandi landsbyggðina, að það kunni að vera að það sé nú svipað, landsbyggð og höfuðborg, þegar upp er staðið. Það getur vel verið að það sé svo en að mínu viti er það þannig að þegar fækka þarf um tvo hjúkrunarfræðinga á litlum stað úti á landi hefur það kannski meiri áhrif en fækkun um tíu á höfuðborgarsvæðinu, eða eitthvað svoleiðis. Það er vegna þess að þau störf skipta svo miklu máli í þeim samfélögum. Það er kannski það sem ég var að reyna að draga fram.

Hitt er rétt, og ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um það, að ekki virðist skipta nokkru einasta máli hvort það er bullandi uppsveifla eða sár niðurskurður, landsbyggðin er einhvern veginn alltaf út undan ef það má orða það þannig. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, það var ekki hægt að fara í ákveðna hluti á landsbyggðinni af því að það hefði orðið þensluhvetjandi eða menn töldu það hafa áhrif á verðbólgu og annað. Á sama tíma var bullandi uppgangur á ákveðnum stöðum á landinu þar sem allir lögðust á eitt við að reyna að framkvæma nógu mikið. Svo kemur kreppan og niðurskurðurinn og enn eru það sömu staðir, það er ekki enn þá hægt að fara í sömu vegaframkvæmdir og óskað var eftir.

Ég held því að við séum sammála um marga hluti í því, ég og hv. þingmaður, og ég þakka honum fyrir andsvarið.