141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er svolítið skrýtið að klukkan er að verða hálftvö um nótt og við ræðum fjárlög. Það hefur tíðkast hjá þessari ríkisstjórn að ræða stærstu málin langt fram í nóttina og er það skrýtið. Hér er mikið um að ræða því þessi fjárlög hafa verið kölluð „óútfyllti víxillinn“ vegna þess að ríkisstjórnin er að fara fram með fjárlög sem raunverulega eru loforð inn í framtíðina langt inn á næsta kjörtímabil, sem er afar einkennilegt. Ber þar fremst í flokki að nefna fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem var kynnt á dögunum. Hún leiddi af sér heilan loforðalista sem felur í sér breytingartillögur upp á fleiri milljarða á því nefndaráliti sem hér liggur fyrir. Þetta eru skrýtin vinnubrögð, sérstaklega í ljósi þess að fjárfestingaráætlunin er ekki föst í hendi. Það á að taka þetta í gegnum veiðigjald á sjávarútvegsauðlindina, svo söluhagnaði á eignasölu. Það er einkennilegt að ríkið skuli vera að fjármagna gæluverkefni með þessu móti, sér í lagi vegna þess að t.d. Framsóknarflokkurinn hefur talað mjög fyrir því að það skuli taka auðlindagjald af þeim auðlindum sem ríkið á. Rukka þá notkunaraðila sem nýta auðlindirnar og setja í sérstakan auðlindasjóð, en þarna er verið að sólunda peningunum í ýmis gæluverkefni. Svo eru fleiri, fleiri breytingartillögur sem hafa í sér þetta ákvæði í lokin, með leyfi forseta:

„Verkefnin verða fjármögnuð annars vegar með sérstakri tekjuöflun af veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegsins og hins vegar með tekjum af arðgreiðslum og söluhagnaði af eignasölu. Þar sem þessi tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, er gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.“

Hér er verið að leggja til fleiri tugi breytinga fyrir fleiri milljarða, en samt er þessi varnagli settur við þær stærstu. Þetta sýnir okkur að ríkisstjórnin veit raunverulega ekki á hvaða leið hún er. Ríkisstjórnin veit greinilega ekki á hvaða leið veiðileyfagjaldsheimildin byggir á, vegna þess að það er ekki komið til framkvæmda hvort sjávarútvegsfyrirtækin geti í fyrsta lagi staðið undir veiðileyfagjaldinu sem er verið að sólunda hér inn í framtíðina og hvað þá heldur hvað fengist fyrir fjármálafyrirtækin og eignirnar sem ríkið á sem á að selja.

Þetta minnir mig nokkuð á ástandið eins og það er í Grikklandi vegna þess að þar er ríkið látið selja og selja ríkiseigur. Flestar grísku fallegu eyjarnar eru komnar í einkaeigu vegna þess að gríska ríkið hefur brugðið á það ráð, eins og íslenska ríkisstjórnin nú, að selja ríkiseigur til þess að eiga fyrir skuldum.

Það er raunverulega rangnefni „að eiga fyrir skuldum“ því það er lítið verið að borga hér niður skuldir. Það er verið að eyða í hin svokölluðu gæluverkefni, eins og ég hef komið inn á bæði í ræðu og andsvörum.

Það er til dæmis alveg einkennileg breytingartillaga sem liggur núna fyrir þinginu. Það er breytingartillaga við 6. gr. fjárlaganna, töluliður 7.9 er bætt við til að veita 500 millj. kr. stofnframlag til stofnunar græns fjárfestingarsjóðs. Hvað þýðir þetta? Í hvað eiga þessir peningar að fara? Það væri kannski ágætt að hv. formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, mundi koma hér upp og kannski svara þessari spurningu minni. Hvað er þessum græna fjárfestingarsjóði ætlað að gera? Hvert er hans hlutverk? Hver á að geta sótt í þessar 500 milljónir sem er áætlað að setja þarna inn samkvæmt breytingartillögunum?

Ég er komin aftur á sama stað og ég var á í andsvari við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson áðan. Það er verið að gera breytingartillögur á milli 1. og 2. umr. í verkefni sem eru óskilgreind og enginn þingmaður veit hvað á að gera við féð, nema kannski nokkrir ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar og þingmenn ríkisstjórnarflokkanna inni í fjárlaganefnd. Mér finnst alveg ótækt að það sé hægt að bjóða þingmönnum upp á svona opnar heimildir. Að vera að dæla út úr ríkissjóði einhverjum óskilgreindum verkefnahugmyndum — og þetta eru engar smáupphæðir, virðulegi forseti. Hér eru settar 500 millj. kr. í þennan græna fjárfestingarsjóð. Ég minntist áðan á 280 millj. kr. sem eiga að fara í ýmis græn verkefni sem ekki er skilgreint nánar hver eru.

Virðulegi forseti. Það hefur verið svo hjá þessari ríkisstjórn að hér hefur farið í gegnum þingið frumvarp eftir frumvarp þar sem lagt er til að það verði stofnuð nefnd, að það verði stofnað til opinberra starfa, að hin og þessi stofnunin verði sett á laggirnar og það kemur sjaldnast fram kostnaðarmat. Svo fáum við þingmenn þetta hér inn í fjárlög. Mig grunar nú að hin svokölluðu grænu verkefni sem á að fara í verði meira og minna einhver uppbygging á opinberri þjónustu, veitt til einhverra auglýsingastofa, veitt til einhverra vildarvina ríkisstjórnarinnar. Þetta kallast að setja bæði fólk og fyrirtæki á ríkisspenann. Það get ég ekki sætt mig við.

Þess vegna fagna ég því mjög að það eru einungis nokkrar vikur fram að kosningum svo við landsmenn losnum við þessa ríkisstjórn, sem virðist vera eitt árið enn í tómu tjóni með fjárlög sín. Enda kemur það hér fram í nefndarálitinu, og ég hef sagt það áður, að líklegt er að fjárlögin standist í þetta sinn, ef ríkisstjórnin þarf ekki að mæta afleiðingum hins svokallaða hruns mikið lengur.

Ég minni á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar, virðulegi forseti. Ég minni á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við löngu liðna atburði. Þessi vinstri stjórn hefur setið í rúm fjögur ár og þetta er árangurinn. Hér er allt saman í bullandi mínus. Það er verið að eyða í verkefni sem eiga ekki rétt á sér þegar skórinn kreppir að, eins og er hér á landi, og lögbundin þjónusta þarf að sæta miklum skerðingum fyrir það eitt að uppfylla einhver kosningaloforð, sem eru því miður uppfyllt þannig að þau koma allt of seint og eru allt of lítil. Að sjálfsögðu sjá landsmenn og kjósendur í gegnum þann hildarleik sem verið er að leika hér.

Við vitum hvernig þetta kom til. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gaf eftir Evrópusambandsumsóknarferlið til þess að fá hér grænar áherslur, bæði inn í fjárlög og stefnu ríkisstjórnarinnar. Gaf upp stuðninginn við Evrópusambandið vegna áherslna sinna í rammaáætlun sem dæmi, þannig að þetta liggur nú hér allt fyrir og verður alltaf skýrara og skýrara eftir því sem tíminn líður.

Ég ætla að nefna eitt dæmi. Við munum öll lætin sem urðu hér fyrir nokkrum vikum vegna netkerfis sem var rekið á vegum ríkisins. Ég man ekki í augnablikinu hvað það netkerfi hét, en það var búið að leggja í það marga milljarða þegar upp var staðið, það var tekið í notkun 2002. Allt ætlaði um koll að keyra og hv. þm. Björn Valur Gíslason hjólaði í ríkisendurskoðanda og kenndi honum um hvers vegna endurskoðun hefði ekki farið fram o.s.frv. Við þekkjum það þó ábyrgðin liggi hjá meiri hluta Alþingis hverju sinni um að veita fjármagn inn í svona kerfi.

Þess vegna vekur það athygli mína að hér er í breytingartillögum meiri hlutans á milli umræðna komið nýtt ákvæði upp á 200 millj. kr. sem er kallað Íslenska upplýsingasamfélagið – Netríkið Ísland. Þar gerir meiri hlutinn tillögu um sérstakt framlag til átaks í því skyni að efla rafræna stjórnsýslu, þjónustu og lýðræði. Það felur í sér stofnfjárfestingu í nýjum tölvukerfum í samstarfi stofnana ríkis og sveitarfélaga. Um er að ræða eitt af verkefnunum sem fram kemur í fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin kynnti á dögunum sem á að gilda fyrir árið 2013 og 2015. Hvaða vitleysa er þetta? Að fráfarandi ríkisstjórn sem veit að hún verður ekki kosin hér til meiri hluta á ný skuli leyfa sér að fara fram með svona, leggja hér fram fjárfestingaráætlun langt inn í framtíðina og eyða og sólunda fé sem byggist á þessari fjárfestingaráætlun sem enginn veit hvort stenst er alveg hreint ófært. Að vera að leggja til svona verkefni — maður bara skilur ekki á hvaða leið þessi ríkisstjórn er.

Svo er annað sem vekur athygli sem hefur fengið mikla gagnrýni og hefur tekið til sín nokkuð mörg hundruð milljónir kr., að mig minnir hátt í 4 milljarða. Hér er enn verið að styrkja umboðsmann skuldara þó allir þeir sem hafa farið í gegnum þjónustuna sem það embætti veitir hafi kvartað yfir því og talað um að embættið sé ekki að sinna því sem það á að sinna. Fólk er algjörlega tekið þar niður á hnén vegna þess að það gerist raunverulega ekkert hjá því verkefni. Auðvitað á þetta verkefni, núna árið 2012, að fara beint til bankanna. Bankarnir eru best til þess færir að leysa úr skuldamálum heimilanna. Hér er enn verið að gefa í. Hér er komið embætti sem þrífst inni í kerfinu sjálfu. Það er ekki nokkur einasti maður sem ég hef heyrt í eða hitt og hefur þurft að nota þessi úrræði sem þarna er boðið upp á, ánægður með það sem þarna fer fram. Nei, það er í anda norrænu velferðarstjórnarinnar að halda þessu embætti við, verið að fjölga starfsmönnum. Það átti að draga saman seglin í þessu embætti strax nú á árinu 2012, en þarna er gefið í. 170 millj. kr. skulu koma inn í aukalega til embættisins í gegnum 2. umr. Þetta eru áherslur og blinda sem ég veit ekki hvernig stendur á að sé verið að sinna og raunverulega taka mark á. En þetta var eitt af stefnumarkmiðum ríkisstjórnarinnar, í stað þess að taka heildstætt á skuldamálum heimilanna voru búnar til og útfærðar ýmsar leiðir sem voru ekkert annað en plástrar fyrir fólk. Fólk sem vaknaði einn daginn upp við það að það skuldaði langtum meira í íbúðunum en það átti er búið að hrekjast á milli úrræða í boði ríkisstjórnarinnar mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Ég minni á að nú er kominn desember 2012. Þetta er hryllileg meðferð ríkisstjórnarinnar á samlöndum sínum, en þetta er það sem hún hefur staðið fyrir, í stað þess að taka heildstætt á vandamálinu og gera alvöru úr því að koma heimilum til bjargar. Mér er sagt, virðulegi forseti, að þetta sé uppskrift frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, en svona er nú komið fyrir stefnu þessarar ríkisstjórnar.

Ég ætlaði líka að fjalla um þann milljarð sem á að setja inn í fangelsisbyggingu á Hólmsheiði. Það er hulið sama óvissuþættinum sem ég kom hér inn á í byrjun. Það er þessi óvissuþáttur sem fyrirvari er gerður við, við svo margar tillögur sem eru í þessum breytingartillögum. Það er þetta óvissuákvæði sem byggist á að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja sé í svo mikilli óvissu að það er gert ráð fyrir því að framlögin gætu tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs. Þarna er ég að vísa í veiðigjaldið og söluhagnað af eignasölu.

Þeir eru samt brattir, þingmenn meiri hlutans sem sitja í fjárlaganefnd, og gera tillögu um einn milljarð í tímabundna fjárheimild til að standa straum af kostnaði við byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði á árinu 2013. Ég vil minna á að áætlað er að heildarkostnaður við bygginguna sé 2,5 milljarðar. Ég veit ekki hvort það sé raunverulega verið að þagga niður raddir sem krefjast þess að úrbætur verði gerðar í fangelsismálum, því það kemur fram að á næsta ári fari fram hönnunarsamkeppni og fullnaðarhönnun byggingarinnar fari fram nú á þessu ári, ætli það sé þá ekki 2012 líklega, byggingarframkvæmdir verði á árinu 2013 og 2014 og fangelsið verði tekið í notkun á miðju ári 2015.

Frá því ég settist á þing 2009 hefur mér verið ljós sú brýna þörf sem er á byggingu nýs fangelsis. Mér hefur líka verið ljós frá haustdögum 2009 hin brýna þörf til að efla hér löggæslu. Mér hefur líka verið ljós sú þörf að efla dómstólana. Nú hefur ríkisstjórnin haft fjögur ár til þess að bæta úr þessum brýnu málum og ekkert verið gert, en nú er verið að reyna að bjarga sér fyrir horn þegar nokkrar vikur eru fram á kosningum og setja þetta inn á ábyrgðir komandi ríkisstjórnar.

Tíminn líður svo hratt, frú forseti. Ég ætla að fara hér aðeins í 6. gr. Það eru merkilegar upplýsingar hér sem vekja margar spurningar, eins og t.d. þessi heimild sem stendur í breytingartillögu frá meiri hluta fjárlaganefndar, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um sölu á hluta af eða öllu því landi ríkisins við Reykjavíkurflugvöll sem er fyrir utan flugvallargirðingu.“

Hvað þýðir þetta um framtíð Reykjavíkurflugvallar? Sérstaklega þegar þetta er lesið saman við upphaflegu heimildina þar sem það átti að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um lóð undir samgöngumiðstöð sem fyrirhugað er að reisa við Reykjavíkurflugvöll. Hvernig á þetta að passa saman? Hvort er ríkisstjórnin að leggja til að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni eða að hann eigi að fara? Það eru mjög misvísandi skilaboð í frumvarpinu og breytingartillögunum, þannig að það væri gott ef einhver úr stjórnarliðinu gæti svarað mér, virðulegi forseti, um hvað þetta á að fyrirstilla.

Annað sem kemur hér á 6. gr. ákvæðinu inn í breytingartillögurnar, það er þetta með Vífilsstaðaspítala og að það eigi að selja fasteignir þar. Ekki nóg með það, heldur munum við öll eftir því sem fór af stað þegar ríkisstjórnin ákvað að leggja niður hjúkrunarþjónustu á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, þá ætlaði nú allt um koll að keyra. Hér voru bæði bæjarstjórnin í Hafnarfirði og náttúrlega þingmenn Kragans og ég sem þingmaður Reykvíkinga og mótmæltum þessu harðlega, að leggja niður þessa mikilvægu starfsemi sem þar var unnin, sem fólst aðallega í neðanmittisaðgerðum kvenna. Því var lofað að þar yrði opið að einhverju leyti og að þjónustan mundi færast á Landspítalann og að húsin mundu vera þarna og Hafnarfjarðarbær gæti nýtt þau. Það voru jafnvel uppi hugmyndir um að þarna yrði sett hjúkrunarheimili eða slíkt, en nú er hér heimild í þessum fjárlögum um að ríkið geti selt eignarhlut ríkisins í fasteignunum. Þannig að ég segi nú ekki annað en það: Hvar eru kratarnir í Hafnarfirði núna? Vita þeir hvað kratarnir í ríkisstjórninni eru að gera? Vegna þess að þetta var algjörlega heilög kýr í augum krata í Hafnarfirði hér á árum áður.

Hér eru ýmsar spurningar. Hér er gefið leyfi til þess að selja hlut ríkisins í Endurvinnslunni. Hver á að vera kaupandi að henni? Eru það einkaaðilar, eða eru það sveitarfélögin? Það er gefin heimild til að selja hlut ríkisins í sparisjóði sem ríkið hefur eignast hlut í og að kaupa og selja hluti í innlendum sparisjóðum í tengslum við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins.

Þarna er enn þá verið að leika sér að þessu sparisjóðakerfi. Við erum minnug þess hvað ríkissjóður varð fyrir miklu tjóni þegar þáverandi fjármálaráðherra, hæstv. Steingrímur J. Sigfússon, fór í SpKef-ævintýrið og ríkissjóður bíður þess ekki bætur enn. Hér er verið að veita víðtækar heimildir fyrir fjármálaráðherra að kaupa og selja ríkiseigur eins og nánast honum sýnist, þrátt fyrir að tillögurnar skuli samt sem áður koma fyrst fyrir hæstv. fjárlaganefnd áður en látið er til skarar skríða.

Hér er líka t.d. heimild til að kaupa hverasvæði Geysis í Haukadal. Hér er verið að leggja til að kaupa sendiherrabústað í New York. Hér er lögð til heimild um að það megi kaupa sumarbústað í þjóðgarðinum á Þingvöllum og jarðir í næsta nágrenni hans.

Virðulegi forseti. Hvar ætlar ríkisstjórnin að finna fjármagn til þess að uppfylla þessa (Forseti hringir.) 6. gr.? Og hvenær kemur það hér inn og á hvaða peninga á þá að benda til þess að uppfylla þessi skilyrði?

Virðulegi forseti. Ég bið um að vera sett aftur á mælendaskrá því ég á mikið eftir ósagt.