141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður fór vel yfir það í ræðu sinni sem sneri að 6. gr. heimildum og hinum óvissa texta sem þar er inni og ekki alltaf gott að átta sig á hvað fylgir honum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um eina breytingartillögu frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Þar kemur fram að millifærðar séu af fjárlagalið fyrir Fjarskiptasjóð 236,6 millj. kr. sem eiga að fara til fjarskiptafyrirtækisins Farice ehf. Þar kemur skýring sem hljóðar þannig, með leyfi virðulegs forseta:

„Um er að ræða rekstur og aðkeypta þjónustu frekar en stofnkostnað.“

— Frekar en stofnkostnað? Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég átta mig ekki alveg nákvæmlega á þessum texta, þ.e. af hverju ekki kemur fullyrðing um að þetta sé ekki stofnkostnaður? Það er ekki alltaf gott að átta sig á þessum hlutum. Komið hefur mjög hörð gagnrýni frá Ríkisendurskoðun sem hefur gagnrýnt hvernig staðið var að því að setja fjármuni þarna inn á sínum tíma fyrir töluvert löngu síðan. Bent er á að ákveðin mótsögn felist í því að það sé túlkað þannig að þetta sé ríkisábyrgð en þó sé ekki tekið ríkisábyrgðargjald. Samt er litið á þetta sem ríkisábyrgð. Síðan er vitnað til þess að það hafi verið gert, eins og hv. þingmaður kom inn á, í þeirri heimildargrein sem er óvænt og ófyrirséð, en samt hafði verið vitað um vandann í á annað ár. Þrátt fyrir það er heimild fengin frá framkvæmdarvaldinu með þessum hætti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir þá skoðun mína að mikilvægt sé að það sé mjög skýrt hverjar heimildirnar séu til framkvæmdarvaldsins á hverjum tíma í stað þess að við fáum texta sem þennan sem segir „frekar en“ í staðinn fyrir að hafa það bara klárt hvað átt er við?