141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði á Vísi í dag, með leyfi forseta:

„Það vita það allir að það þarf að setja íslenska ríkinu fjárlög fyrir áramót þannig að hægt verði að borga hér út laun 1. janúar …“

Virðulegi forseti. Nú stendur yfir 2. umr. um fjárlög. 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2011 lauk 8. desember 2010. Þá voru greidd út laun 1. janúar næsta ár.

Fjárlög 2010. Umræðu lauk 14. desember, þ.e. tíu dögum frá deginum í dag. Þá voru greidd út laun 1. janúar.

Vegna fjárlaganna 2009 lauk 2. umr. 15. desember og laun voru greidd út 1. janúar.

Ég ráðlegg hæstv. ráðherra að hugleiða söguna um drenginn og úlfinn.

Hitt vil ég nefna að það er rétt að staðið hefur yfir umræða í 30 klukkustundir eða svo um 2. umr. fjárlaga. Árið 2007 þegar rædd voru fjárlög 2008 stóð sú umræða yfir í 20 tíma. Í þeirri umræðu talaði hæstv. núverandi ráðherra Steingrímur J. Sigfússon í rúmlega 2,5 klukkustundir. Enginn ræðumanna í þessari umræðu hér hefur talað í líkingu jafnlengi. (Gripið fram í: Hvað með það?)

Hvað með það? er kallað fram í.

Það er réttur þingmanna að tjá sig. Það er réttur þingmanna að tala um fjárlög og ég vil leyfa mér að segja að það sé skylda þeirra. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sinnti þeirri skyldu sinni í 2,5 klukkutíma. (Gripið fram í: Uss.) Það er ósanngjarnt og það er rangt að gera athugasemdir við það þegar aðrir þingmenn gjöra hið sama (Gripið fram í: Iss.) og ég vil benda á, virðulegi forseti, að stóryrði voru látin falla um svokallað málþóf á föstudegi þá þegar umræðan hafði staðið jafnlengi og hún stóð 2007 vegna fjárlaganna 2008.

Þá geta hv. þingmenn sett þetta í samhengi, (Forseti hringir.) m.a. við þau stóryrði sem hæstv. ráðherra hefur látið falla um launagreiðslur 1. janúar (Forseti hringir.) þar sem hann gerir því skóna að ekki verði hægt að standa við greiðslur á laun til opinberra starfsmanna. Hvers lags vitleysa er þetta, virðulegi forseti?