141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst það að bera í bakkafullan lækinn þegar hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon kemur hingað sjaldan inn, eins og hann réttilega sagði sjálfur, og talar svo niður til okkar þingmanna, segir okkur fyrir verkum. Ég hélt reyndar að það sem við ætluðum að læra af skýrslu þingmannanefndarinnar og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og er alveg sammála, hefði meðal annars verið að efla sjálfstæði Alþingis og traust á Alþingi, m.a. með því hvernig við tölum, hv. þingmenn, allir með tölu og hvernig við hegðum okkur, allir með tölu, líka þeir sem tala reglulega, að því er virðist, fyrir hönd einhverra annarra en sjálfra sín og niður til okkar hinna.

Það er ýmislegt að í störfum þingsins. Það er ýmislegt sem þarf að bæta, m.a. það að við séum ekki í hvert einasta sinn þegar kemur að þinghléum með heila súpu af málum sem við vitum ekki hvort á að klára, hvort framkvæmdarvaldið vill að verði kláruð. Svo á framkvæmdarvaldið ekki að koma með málin hingað inn til þess að þingið geti fjallað um þau eftir þess höfði heldur eftir eigin sjálfsmati, hvort það sé nauðsynlegt en ekki sem afgreiðslustofnun. Það er málið. Við þurfum einfaldlega meiri tíma.

Þingið hefur látið bjóða sér að misfara með stjórnarskrána og settir hafa verið einhverjir ímyndaðir tímafrestir á þingnefndir til að klára mál og fólki neitað um að senda inn skriflegar umsagnir. Ég skil það ekki.

Það hefur reyndar verið betri bragur á því í atvinnuveganefnd þar sem við höfum hreinlega beðið fólk um skriflegar athugasemdir og ég vona að það verði við því. En fólk spyr: Þýðir það nokkuð? Á nokkuð að gera með það?

Það er nokkuð alvarlegt þannig að það er ýmislegt að í störfum þingsins en vandinn er ekki í því fólginn að við tökum fjárlögin á hverjum tíma til umræðu. Það hefur þvert á móti verið hið gagnstæða, allt of fáir hafa tekið til máls um fjárlögin og fjáraukalögin á hverjum tíma. Það er til skammar (Forseti hringir.) hversu fáir hafa tekið til máls og ég tel að það sé þinginu til mikils sóma að við vöndum okkur við umræðuna.