141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði á undan mér, margt bíður umræðu og afgreiðslu þessa þings. En það kemst ekki á dagskrá vegna þess að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og nokkrir þingmenn úr liði framsóknarmanna vilja tala endalaust við 2. umr. fjárlaga. Svo ber hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sig illa undan málþófsstimplinum sem hann kallar, segir að hann hafi verið borinn á sig þegar 20 klukkutímar voru liðnir við 2. umr. og það sé bara rétt eins og hafi verið gert á árinu 2007, þá hafi verið talað í 20 tíma um fjárlög. Nú eru liðnir yfir 30 tímar og við heyrðum áðan að það á að tala í nokkra daga í viðbót og það hlýtur þá að verða mjög innihaldsríkt eða á svipuðum nótum og við höfum verið að hlusta á.

Þarna vísaði hv. þingmaður til hrunársins, til fjárlagaársins 2008, þegar óveðursský hrönnuðust upp allt í kringum okkur og þáverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins skelltu við skollaeyrum. 20 tíma tók að ræða fjárlög ársins 2008. (Gripið fram í: Og ráðherrar …)

Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að grafa svo langt aftur. Við þingmenn skulum bara vakna og átta okkur á því að við breyttum þingsköpunum í sumar og í 3. mgr. 25. gr. er ákvæði um að stefnt skuli að því að 3. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár skuli lokið eigi síðar en við lok fyrstu heilu viku desembermánaðar. (Gripið fram í.) Og þessu, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sem sast í þingskapanefndinni, fylgir greinargerð þar sem dregið er upp hvers vegna það er nauðsynlegt — (REÁ: Hvar eru tekjufrumvörpin?)

Forseti. (Forseti hringir.) Ég gefst upp á þessum hv. þingmanni. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að fá hér eina eða tvær mínútur (Forseti hringir.) til að ræða um störf þingsins (Forseti hringir.) og þurfa endalaust að svara spurningum utan úr sal. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Þetta er ekki boðlegt.