141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er fjármögnunin óljós. Það er svakalegt að upplifa að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að afgreiða þetta og megum helst ekki ræða það. Fyrst þarf náttúrlega að skerða málfrelsið. Það er hjákátlegt að upplifa að fyrsta vinstri ríkisstjórnin hótar að skerða málfrelsi þingmanna. Mér leikur forvitni á að vita hvernig það verður þegar við ræðum vanbúnu tillögurnar varðandi breytingarnar á stjórnarskránni. Hvernig verður það þegar við förum að ræða mannréttindakaflann í þinginu, ekki síst tjáningarfrelsið? Hvað ætlar ríkisstjórnin þá að gera? Ætlar hún að hefta málfrelsi okkar? En það er önnur saga.

Auðvitað eru þetta vanbúnar tillögur. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir bendir réttilega á það, en um leið dregur hún fram að við höfum ekki fengið tækifæri til þess að ræða þær við atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, ráðherrann sem er yfir sjávarútvegsmálum, ráðherrann sem er yfir bönkunum. Við fáum ekki tækifæri til að ræða þessar vanbúnu tillögur við hann því að ráðherrar láta ekki mikið fyrir sér fara í þessum ræðustól. Ég held að það sé einsdæmi, eftir þennan tíma, í umræðum á þingi. Það er afar slæmt.

Ég ætla að fletta þessu góða blaði, Morgunblaðinu, því að ég vil koma að því sem snertir St. Jósefsspítala. Þar benda bæjarfulltrúar, m.a. okkar sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, á hið farsæla starf sem St. Jósefsspítali í Hafnarfirði hefur að baki eftir margra áratuga reynslu og samvinnu við systurnar o.fl. Hér voru höfð uppi fögur fyrirheit. Við reyndum að sýna því skilning að það þyrfti að hagræða, en allt það sem var lofað var svikið. Það var svikið af velferðarráðherra og þeim þingmönnum sem hafa stutt hann í því að loka St. Jósefsspítala, þeirri merku stofnun sem á sér svo miklar og sterkar sögulegar rætur. (Gripið fram í.)