141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta andsvar. Það er rétt og kemur svo sem ekki á óvart að ríkisstjórnin sveik allt sem var lofað varðandi St. Jósefsspítala á upphafsdögum sínum því að hún hefur meira að segja svikið Samtök atvinnulífsins og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Svikabrautin sem þessi ríkisstjórn hefur gengið er endalaus. Það er alveg hreint með ólíkindum hvað ríkisstjórnin fær mikinn frið í samfélaginu miðað við öll þessi svik. Ríkisstjórnin hefur meira að segja svikið minnsta stjórnarandstöðuflokkinn á þingi og þingmennirnir láta það yfir sig ganga, þá er ég að vísa í samkomulagið sem var gert milli jóla og nýárs fyrir rúmu ári, en það er þeirra mál.

Þetta eru blákaldar staðreyndir um akkúrat St. Jósefsspítala. Hann er kannski af þeirri stærðargráðu að hægt er að tala um hann. Hann er ekki það stór að fólk skilur upphæðirnar sem liggja að baki. Það er öðruvísi þegar farið er að tala um milljarða þá tapar fólk einhvern veginn sýninni á þær miklu upphæðir sem um er að ræða.

Í framhaldi af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, þar sem á að fjárfesta langt inn í næsta kjörtímabil fyrir veiðigjald sem á að taka sem ekki er vitað hvað verður mikið og hugsanlega sölu fjármálastofnana, langar mig að spyrja þingmanninn vegna þess að ég veit að hún er áhugamanneskja um bætta fangelsisaðstöðu hér á landi eins og ég. Lagt er til að 1 milljarður fari í nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði en síðan er bráðabirgðaákvæði um að ef fjármögnun gengur ekki eftir megi búast við breytingum. Er hv. þingmaður ekki hrædd um að ef farið verður af stað með þennan 1 milljarð og honum eytt í hönnunarkostnað og einhverja smáuppbyggingu að þarna (Forseti hringir.) verði til önnur og ný Harpa vegna þess að það er alveg óráðið með restina sem vantar í fjármögnunina, þ.e. 1,5 milljarða í viðbót?