141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fangelsið á Hólmsheiði held ég að við séum sammála því, ég og hv. þingmaður, að við þurfum nýtt fangelsi, við þurfum kvennafangelsi og nýtt gæsluvarðhaldsfangelsi. Að þessu hefur verið unnið. Menn geta haft skiptar skoðanir um hvar það eigi að vera, hversu umfangsmikið það eigi að vera og svo framvegis, en við verðum einfaldlega í þessu tilviki að treysta þeim nefndum og sérfræðingum sem hafa sett þessar tillögur fram.

Ég tek undir ákveðnar áhyggjur sem komu fram í máli og fyrirspurn hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur varðandi framhaldið á þeirri byggingu sem snertir fangelsið á Hólmsheiði, en ég vonast til þess að hægt verði að halda verkefninu áfram því að það er brýnt fyrir fangelsismálastefnu og innanríkisstefnu okkar Íslendinga.

Síðan er það fjárfestingaráætlunin sem slík. Ég hef sagt að það er fullt af fínum verkefnum þarna, talandi um fangelsið á Hólmsheiði og fleiri verkefni, en önnur verkefni eru samt látin sitja á hakanum út af gæluverkefnum ríkisstjórnarinnar sem felast í fjárfestingaráætluninni og á ýmsum öðrum stöðum í fjárlagafrumvarpinu og birtast okkur hverju sinni. Þess vegna finnst mér sárt, af því ég er í allsherjar- og menntamálanefnd, að heyra hvern gestinn á fætur öðrum, líka þá sem eru starfsmenn innanríkisráðuneytisins, tala um að ekki sé hægt að skera meira niður, eins og hjá lögreglunni, það sé bara ekki hægt, þegar ég velti fyrir mér því sem tengist til dæmis grænkun fyrirtækja, fínt verkefni, en það getur beðið.

Það er voðalega erfitt fyrir suma þingmenn þegar kosningar eru í nánd að þora að forgangsraða, en það er hlutverk og ábyrgð okkar stjórnmálamanna að þora að forgangsraða og segja stundum óþægilegu hlutina fyrir kosningar. Við eigum að forgangsraða í þágu grundvallarstoðþjónustu okkar Íslendinga, löggæslan er þar á meðal. Ríkisstjórnin er ekki að forgangsraða í þágu löggæslunnar, hvað þá menntunar, vísinda og rannsókna.