141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:03]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum nú spyrja að leikslokum hverjir verða atvinnulausir og hverjir ekki.

Ég vil koma hérna upp því að vikið var orði að þeim sem hér stendur í ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. Margir í svokallaðri stjórnarandstöðu (Gripið fram í: Svokallaðri?) hafa kvartað yfir að heyra ekki fjárlagaumræðu þeirra sem teljast til upphafsmælenda í fjárlagaumræðunni af hálfu stjórnarliða. Þann 29. nóvember 2012 flutti sá sem hér stendur mjög ítarlega ræðu um öll þessi atriði, þar á meðal hagspár sem hv. þingmaður kom inn á. Hann var þá væntanlega ekki í húsi til að hlýða á snarpa, innihaldsríka og mjög góða ræðu þess sem hér stendur um einmitt þetta atriði, þannig að ekki er nóg að koma upp og kvarta yfir því að stjórnarþingmenn tjái sig ekki ef hinir sömu aðilar hafa ekki hlustað á. Ég vil því halda því til haga, herra forseti, að ég hef fjallað rækilega um fjárlögin bæði í 1. og 2. umr., komið í fjölda andsvara til að eiga orðastað við menn. Þessu er þar með komið á framfæri.

Ég vil hins vegar beina þeirri efnislegu spurningu til hv. þingmanns, hvar Sjálfstæðisflokkurinn vilji helst skera niður. Sjálfstæðisflokkurinn var á tímabili þeirrar skoðunar að það ætti ekki að skera niður, það væri allt of mikið skorið niður, en nú er hann kominn á þá skoðun að skera þurfi niður sem nemur tugum milljarða, það eru nýjustu hugmyndirnar. Að ekki sé talað um hugmyndir Sambands ungra sjálfstæðismanna sem eldri sjálfstæðismenn hafa þráfaldlega talið vera heimskulegar. En hvar á að skera niður?