141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:37]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni Framsóknarflokksins, eins og staðan er í dag, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir hans ágætu ræðu sem var á margan hátt innihaldsrík. Hann hefur farið talsvert í fjárlög í umræðu sinni í dag og þar á meðal minnst á að ríkisstjórnin fari nú eins og á gullvagni hringinn í kringum landið með öll sín gæluverkefni. Það er athyglisvert.

Auðvitað er það svo, og það eru allir sammála um sem til þekkja, að gríðarlega hefur áunnist í því verki ríkisstjórnarinnar að skófla burt rústunum eftir nýfrjálshyggjutímann og reisa samfélagið við. Allir erlendir sérfræðingar eru sammála um það og horfa til Íslands sem forusturíkis í þeim efnum að reisa við samfélag sem hefur orðið illa úti vegna nýfrjálshyggjutilraunar og mannfyrirlitningarinnar sem felst í henni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann mjög einfaldrar spurningar og ég ætla að skipta henni niður eftir andsvörum. Hvar nákvæmlega eru gæluverkefnin? Ég vil fyrst biðja hann um að nefna þau gæluverkefni ríkisstjórnarinnar sem er að finna í Suðurkjördæmi og í fyrri hluta andsvars hans að nefna þau gæluverkefni sem er að finna í Norðausturkjördæmi. Það er einföld spurning, hann getur dvalið við svarið eitt og sér. Byrjum í Suðurkjördæmi, teljum upp öll gæluverkefnin sem er að finna nákvæmlega þar. Síðan í Norðausturkjördæmi, nákvæmlega hvaða gæluverkefni er að finna af hálfu ríkisstjórnarinnar, sem fór á meintum gullvagni sínum hringinn í kringum landið að sögn hv. þingmanns, er að finna í Norðausturkjördæmi?

Ég mun síðan í seinna andsvari mínu koma að þeim gæluverkefnum sem er væntanlega að finna í kjördæmi hv. þingmanns en þætti vænt um að heyra fyrst nákvæmlega hvaða gæluverkefni eru á ferðinni í Suðurkjördæmi og í Norðausturkjördæmi.