141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:41]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sakna þess að hv. þingmaður hafi ekki svarað mér skilmerkilega. Ég bað um nákvæmlega tilnefnd gæluverkefni í Suðurkjördæmi annars vegar og Norðausturkjördæmi hins vegar. Hv. þingmaðurinn kaus hins vegar að fara um víðan völl. (Gripið fram í.)

Þá vil ég í seinna andsvari mínu að hv. þingmaður staldri einvörðungu við heimakjördæmi sitt, hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Nákvæmlega hvaða gæluverkefni er að finna af hálfu ríkisstjórnarinnar í Norðvesturkjördæmi? Við skulum bara halda okkur við það kjördæmi. Ég vil ekki tala um verkefni sem ná yfir landið í heild sinni. Hv. þingmaður fór mikinn í ræðustól fyrr í dag og sagði að ríkisstjórnin væri að fara á gullvagni hringinn í kringum landið með gæluverkefni sín. Hvar nákvæmlega er þau gæluverkefni að finna, hringinn í kringum landið? Hann gat ekki nefnt mér neitt í Suðurkjördæmi áðan, hann gat ekki nefnt mér neitt í Norðausturkjördæmi áðan en þá er komið að hans eigin kjördæmi, hv. þingmanns. Hvar nákvæmlega er gæluverkefnin að finna? Hver eru þau, hvar eru þau og á hendi hverra? Kannski einhverra annarra en ríkisstjórnar, ég veit það ekki. Það væri ánægjulegt að einhver innstæða væri fyrir þeim orðum og hann gæti þá, vegna þess að hann er heimakunnugur, nefnt mér nákvæmlega þau gæluverkefni sem er að finna í hans eigin kjördæmi og hann þekkir betur til en sá sem hér stendur. Hver eru gæluverkefnin í Norðvesturkjördæmi? Hér og nú kemur svarið.