141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þetta var mjög áhugaverð ræða um áhættur hjá hv. þingmanni. Ég hef dálítið verið að fjalla um þær í 2. umr. um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, ég hef verið að tala um stórar áhættur ríkissjóðs. Margir hafa í umræðunni rætt um skaða ríkissjóðs vegna áhættu sem þegar er fallin á, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Menn hafa talað um Íbúðalánasjóð, það er nú þekkt. Sumir segja að Íbúðalánasjóð vanti enn þá 13 milljarða, aðrir segja 20 milljarða, sumir 40. Það er eftir því hvernig menn meta þá raunvaxtalækkun sem hefur átt sér stað. Síðan hafa menn talað um A-deild LSR, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem átti að vera sjálfbær en er komin í 57 milljarða í mínus. Þeir 57 milljarðar fara ekki neitt, þeir hafa reyndar hækkað um 10 milljarða frá því í fyrra. Skuldbindingin hefur aukist um 10 milljarða á einu ári. Það er ekki talað um það heldur. Svo var Seðlabankinn með alveg gífurlegt tjón eftir hrun. Þarna eru stóru tölurnar.

Ég hef verið að spyrja: Hvað kemur þetta eiginlega fjárlagafrumvarpinu við? Það er dálítið merkilegt. Ég hef verið að líkja þessu við nót, hér eru sumir sjómenn sem þekkja til, herra forseti, skipstjórar og aðrir sem þekkja nætur. Í þeim er fullt af möskvum sem eru hafðir mismunandi stórir, jafnvel til að ná í mismunandi tegundir af fiskum. Það má líta á fjárlagafrumvarpið sem eins konar nót sem menn eru að víkka út möskva á hér og þar til þess að koma að litlum fjárveitingum í þetta og hitt.

Ef við lítum á líkinguna við nót má segja að svo kemur allt í einu háhyrningur eða hvalur og sprengir heljarinnar gat á nótina, þá erum við að tala um alvöruupphæðir.

Heildaraukning á útgjöldum sem fjárlaganefnd komst að eftir mikla vinnu í allt haust er 7,7 milljarðar. Það leggur hún til. Reyndar er það mest allt frá hæstv. ríkisstjórn, en engu að síður er þetta eitthvað sem fjárlaganefnd leggur til. Þessi upphæð er helmingurinn af því sem menn segja að þurfi að lágmarki í Íbúðalánasjóð. Helmingurinn af því sem þarf að lágmarki í Íbúðalánasjóð er allt það sem fjárlaganefnd er að bisa við að bæta inn í fjárlögin, 7,7 milljarðar. Síðan koma allt í einu 7,7 milljarðar, svo koma allt í einu 13 milljarðar, það er nú ekki einu sinni búið að setja þá inn í fjárlögin eða fjáraukalögin, en það er sú upphæð sem menn eru að tala um. Sumir segja 20 milljarðar, það eru þá þrefaldaðar allar þær breytingar sem fjárlaganefnd er að gera og kemur sem einn liður vegna áhættu hjá Íbúðalánasjóði. Við erum þegar búin að setja 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóð í raunverulegum peningum.

Þess vegna held ég að umræða um stórar áhættur og umræða um ríkisábyrgðir eigi vel heima inni í umræðum um fjárlagafrumvarpið. Það er þar sem fjárlagafrumvarpið er gatað í gegn, það hafa verið sprengd í það heljarinnar göt.

Þau göt eru ekki einu sinni komin fram. Mest af þeim kemur ekkert fram, herra forseti. Ég nefni Sparisjóð Keflavíkur. Þar var vandi upp á 20 milljarða, að sagt er. Hann hefur ekki komið neitt fram. Menn gerðu eitthvað, ég veit ekki almennilega hvað þeir gerðu, það verður nú áhugavert fyrir nefndina að upplýsa það. Hvað varð um þessa 20 milljarða skuldbindingu hjá Sparisjóði Keflavíkur? Mér skilst að skuldabréf hafi verið gefið út til langs tíma. Er það mögulegt innan stjórnarskrárinnar að láta 20 milljarða bara hverfa með því að gefa út skuldabréf? (Gripið fram í.) Það má ekki gefa út skuldabréf, alla vega ekki með ríkisábyrgð. Ég get ekki ímyndað mér annað en það hafi verið með ríkisábyrgð.

Ríkisábyrgðir eru stórhættulegar. Af hverju eru þær stórhættulegar? Vegna þess að ríkisábyrgðir eru ábyrgð ríkissjóðs á því að eitthvað sé gert sem ella yrði ekki gert. Íbúðalánasjóður er gott dæmi um það. Þar er ríkið með ríkisbanka, því Íbúðalánasjóður er ríkisbanki, þar sem eiga aðgang að allir íbúar landsins með góðar tekjur og lágar tekjur, miklar eignir, litlar eignir — ég gæti fengið lán hjá Íbúðalánasjóði með ríkisábyrgð.

Af hverju er ríkissjóður að standa í þessu? Af hverju þarf ríkissjóður að hjálpa fólki sem er ekkert hjálparþurfi til þess að kaupa íbúðir? Maður spyr: Af hverju er Íbúðalánasjóður ekki lítill og nettur fyrir þá sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda við kaup á ódýru húsnæði? Af hverju fá þetta allir? Þetta vildi ég að menn spyrðu sig akkúrat núna þegar Íbúðalánasjóður er í þvílíkum vanda að sumir eru jafnvel farnir að tala um hundruð milljarða.

Ég held við þurfum að skoða á mörgum öðrum sviðum af hverju ríkissjóður er að stunda þessa starfsemina og hina.

Af hverju er ríkissjóður til dæmis að framleiða raforku? Ég bara skil það ekki. Af hverju framleiðir hann ekki mat? Ég sem einstaklingur þarf miklu frekar mat heldur en raforku. Ég gæti farið yfir í olíu og bensín, en af hverju í ósköpunum er ríkissjóður að framleiða raforku? Ég get sagt herra forseta af hverju það er. Þegar raforkuvirkjanir byrjuðu á Íslandi voru þær svo stór verkefni að það réð enginn við þau nema ríkissjóður. Það er löngu liðin tíð. Ég mundi vilja að menn drægju sig út úr þessari gífurlegu áhættu sem Landsvirkjun er. Ég fór í gegnum það. Landsvirkjun er sennilega 500 milljarða áhætta fyrir ríkissjóð. Við skulum vona að hendi þann rekstur ekki neitt, en allur rekstur er með áhættu, bara svo menn viti það.

Svo er spurningin, sem er reyndar ekki í ríkisábyrgð, það er Orkuveita Reykjavíkur. Hún er búin að valda alveg gífurlegu tjóni, sá opinberi rekstur. Hvers vegna er Reykjavíkurborg að framleiða raforku með þeim hætti sem þar er gert? Þar gera menn risamistök að hafa lánin í annarri mynt heldur en skuldirnar af því menn vildu komast í góða, lága vexti og tjónið bera skattgreiðendur, reyndar í Reykjavík og notendur heita vatnsins og raforkunnar hérna í Reykjavík.

Ég held að við þurfum að fara að skoða ríkisábyrgðir miklu betur.

Það er enn eitt fyrirtæki sem ég hafði gleymt, herra forseti, þess vegna kom ég nú í ræðustól. Það er Landsbankinn. Þar er ríkissjóður að reka banka. Það er þekkt að það er hægt að reka banka án þess að nein ríkisábyrgð sé á honum. Það var gert hérna fyrir hrun og gengur í flestum löndum, meira að segja ESA gerði athugasemd við að ríkissjóður reki banka. Áhættan af Landsbankanum er geysileg. Ef hann færi á hausinn — sem við vonum endilega að gerist ekki, ég vona að sjálfsögðu að allt þetta sem ég er að nefna gerist ekki, en allt er þetta rekstur. Rekstur hefur þann undarlega eiginleika að í honum er áhætta. Ef Landsbankinn færi á hausinn mundi eigið fé upp á 213 milljarða tapast. Skuldir mundu tapast og það þyrfti að standa skil á innstæðum og öðru slíku. Samtals eru þetta yfir þúsund milljarðar. Þúsund milljarðar sem menn eru að leika sér með ábyrgð almennings á.

Ég held að menn ættu sem allra snarast að losa sig út úr Landsbankanum sem og öðrum bönkum. Ég sé ekki af hverju í ósköpunum ríkissjóður þarf að stunda slíka starfsemi.

Svo eru vandamálin með spariinnlánin sem menn hafa nefnt. Yfirlýsing ráðherra var um að það væri ábyrgð á innstæðum. Reyndar er ekki ríkisábyrgð á þeim sem betur fer, en ég held að menn ættu sem allra fyrst að draga það skýrt fram að það sé ekki nein ríkisábyrgð á innstæðum. Segja skýrt út: Það er ekki ríkisábyrgð á innstæðum. Þar er nefnilega um 2.000 milljarða að ræða.

Ég held að þetta mál eigi heima í umræðu um fjárlög vegna þess að það eru einmitt þessar stóru ríkisábyrgðir sem sprengja fjárlögin. Þær sýna margar, margar risatölur inni í þessum fjárlögum, eins og ég hef nefnt í mínum ræðum. Ég nefni 57 milljarða hjá LSR, bara A-deildinni. Svo eru 400 milljarðar í B-deildinni. Svo eru fimmtíu og einhverjir milljarðar í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. Allt er þetta ógreitt. Svo tala menn um að fjárlög séu fín og góð og skotheld og allt slíkt. Þau eru það ekki.