141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:05]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum við 2. umr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Ég verð að segja að framkoma hæstv. ráðherra hér áðan undir liðnum um störf þingsins kom mér verulega á óvart en það er kannski af því að ég hef ekki orðið vitni að svona framkomu áður. Hæstv. ráðherra hefur ekki verið í þingsalnum við 2. umr., ekki svarað fyrirspurnum og ekki tekið þátt í umræðum. Mér finnst mjög einkennilegt að ráðherra komi svo hér og gefi þingmönnum fyrirmæli og tilmæli um að nú sé nóg komið og segir að ekki þurfi að ræða fjárlögin meira því að þetta séu algjörlega frábær fjárlög og engin ástæða til að skeggræða þau neitt meira. Þessi framkoma styrkir enn frekar þá skoðun mína að aðgreina þurfi á milli arma ríkisvaldsins, þ.e. að ráðherrar eigi ekki að vera þingmenn, þeir eigi að segja af sér þingmennsku þegar þeir taka að sér ráðherrastörf.

Ég er hins vegar komin hingað til að tala um það frumvarp til fjárlaga sem er til umræðu. Þegar kreppir að finnum við því miður öll harkalega fyrir því hversu miklir áhrifavaldar stjórnmálamenn eru raunverulega í lífi okkar og hversu mikið þeir hafa um það að segja hverjar ráðstöfunartekjur okkar eru frá mánuði til mánaðar. Það eru þeir sem hafa áhrif á það hvað birtist í launaumslaginu okkar í mánuði hverjum, auðvitað ásamt því vinnuframlagi sem við leggjum á okkur í hverjum mánuði. Við ráðum bara yfir hluta af því. Greiðslubyrðin hefur aukist gríðarlega undanfarin fjögur ár, alveg frá hruni, ekki bara af því að verð hækkar eða af því að krónan féll heldur er því miður margar ástæður að finna hér fyrir aukinni greiðslubyrðinni. Því valda aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem situr hér alla daga og þyngir byrðar fjölskyldnanna í landinu. Skattar virðast hækka í hvert skipti sem fjármálaráðherra stígur í pontu en hátt á annað hundrað skattbreytingar hafa átt sér stað á undanförnum árum. Núverandi ríkisstjórn hefur tekist að gera skattkerfið eins ógagnsætt og mögulegt er. Það er ekki nokkur leið fyrir almenning að fylgjast með öllum þessum breytingum og í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er enn gefið í. Það er búið að taka alla hvata úr kerfinu og skilaboðin sem vinstri stjórnin sendir þeim sem reyna að bæta stöðu sína og leggja meira á sig til að ná endum saman er að það borgar sig ekki að vinna meira. Hvers lags skilaboð eru það á þessum erfiðu tímum? Þetta er meðal þeirra fáu skattbreytinga sem flestir eru fljótir að skilja. Það borgar sig ekki að vinna meira því að þá tekur ríkissjóður meira til sín. Meiri vinna þýðir meiri skattur. Það er ótrúleg staða sem við erum búin að koma okkur í og ég segi „við“ því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki ábyrgðarlaus þegar kemur að því hvernig skattbyrðin hefur aukist undanfarin ár. Það er ekki eðlilegt hversu háir skattarnir eru og hversu miklu fé almennings stjórnmálamenn eru farnir að útdeila úr sameiginlegum sjóðum. Það er ekkert eðlilegt við það hversu hátt hlutfall skattar eru af almennum launum. Væri ekki nær að einstaklingar fengju meira af sínum eigin launum og hefðu meira um sín eigin laun að segja og hvernig þeir vilja verja þeim? Við vitum öll hvaða áhrif þessi þróun hefur, hún hefur þau áhrif að atvinnustarfsemi færist neðan jarðar. Svört atvinnustarfsemi fer að margborga sig og það er nokkuð sem við getum ekki mælt. Það eru annars vegar tapaðar tekjur fyrir ríkissjóð og hins vegar ekki góð þróun fyrir þjóðfélagið.

Það er kannski óviðeigandi að segja þetta hér en þetta er samt staðreynd, fólk bjargar sér. Það er bara innbyggt í íslensku þjóðarsálina að fólk gefst ekki upp, en nú þegar stjórnmálamenn taka sér svona mikið vald með skattheimtu vitum við hver afleiðingin af því er. Þetta er það sem ríkisstjórnin boðar. Ég er ekki að segja að hún boði svarta atvinnustarfsemi en hún boðar stöðugar skattahækkanir og álögur og að sjálfsögðu færir fólk sig undan svona yfirboði. Það getur ekki liðið þetta endalaust, það þarf einhvern veginn að komast af.

Í því frumvarpi til fjárlaga sem við ræðum hér hækka álögur enn frekar á skuldug heimili og fyrirtæki. Fyrir liggur að bensíngjald verður hækkað enn og aftur. Jafnframt verða áfengisgjöld hækkuð. Menn dreymir væntanlega um að þessi skattlagning leiði til þess að áfengisneysla minnki í kjölfarið, en það er öðru nær. Með leyfi forseta var fyrirsögn Fréttablaðsins í vikunni: „Bruggið hellist yfir landann.“

Það er ekki að ástæðulausu, helmingur námsmanna á Íslandi verður meira var við heimabrugg og smygl nú en fyrir hrun. Hlutfallið hefur hækkað frá fyrra ári. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var á vegum MMR fyrir Félag atvinnurekenda um miðjan nóvember síðastliðinn. Samkvæmt könnuninni hafði 31% svarenda orðið vart við mikla eða nokkra aukningu á heimabruggi eða smygli á áfengi fyrir hrun. Hlutfallið var um 22% áður. Tæp 48% svarenda á aldrinum 18–29 ára sögðust hafa orðið vör við mikla eða nokkra aukningu. Sjálf er ég nú örlítið eldri, 35 ára, og fyrr á árinu var góður vinur minn staddur í afmæli hjá jafnöldru minni sem væri kannski ekki í frásögur færandi nema að hann fékk sér aðeins í tána, eins og menn gera, en frétti síðar að hann hefði verið að drekka landa sem viðkomandi hefði aldrei gert ef hann hefði vitað af því. Ég er skíthrædd við þessa þróun, að unga fólkið okkar sé að drekka landa sem enginn veit hvaðan kemur eða hvað er í. Þetta getur verið hættulegt heilsu fólks.

Þetta er skýr afleiðing af stefnu vinstri stjórnarinnar og þeirri stefnu hennar sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem við erum að fjalla um hér. Framleiðslan og neyslan færist út fyrir markaðinn. Það má einnig benda á að hækkun á áfengisgjöldum fer beint inn í vísitöluna og hækkar húsnæðislán fjölskyldna í landinu og leigugjöld og skilar sér ekki í auknum tekjum til ríkissjóðs þar sem til dæmis sala á sterku víni hefur hríðfallið, ég held um 40% á síðustu árum, og heldur áfram að falla. Það er bara verið að færa söluna til og neyslan færist líka til.

Með stefnu sinni stuðlar vinstri stjórnin að svartamarkaðsbraski með áfengi sem getur verið hættulegt ungmennum þessa lands. Þetta er staðreynd sem við vissum af, það hefur verið vitað lengi að þetta mundi gerast. Við þekkjum að svona var þetta hér áður, m.a. meðan bjórinn var bannaður. Menn verða sér úti um það sem þá langar að fá sér og sérstaklega ef þá langar að fá sér í tána, þá er það bara þannig.

Bensínhækkanir, áfengisgjöld, vörugjöld og önnur gjöld sem hafa bein áhrif á vísitöluna hafa mikil áhrif á húsnæðislánin. Til að taka dæmi um áhrif sambærilegra hækkana á undanförnum árum hefur íbúð sem leigð var fyrir tveimur árum og kostaði 160 þús. kr. hækkað um 15 þús. kr. þannig að nú kostar 175 þús. kr. að leigja sömu íbúð. Það er ágætisvísbending um hvernig gjöldum og skattahækkunum er velt yfir á fjölskyldurnar og heimilin í landinu. Þetta er það sem núverandi ríkisstjórn hefur boðið heimilunum upp á og hún boðar auknar álögur á komandi ári. Því miður eru fæst fyrirtæki í landinu í stakk búin til að bjóða launþegum sínum upp á sambærilegar hækkanir, enda hafa álögur á fyrirtæki aukist samhliða undanfarin ár.

Í dag hefur ítrekað verið spurt hvernig við sjálfstæðismenn mundum vilja sjá fjárlögin. Því er auðsvarað í mínum huga. Stærsta verkefnið sem starir á mann, ef maður getur sagt sem svo, þegar maður skoðar fjárlögin er vaxtagjöldin. Þau eru þriðji stærsti útgjaldamálaflokkurinn á eftir velferðarmálunum og heilbrigðismálunum, alls 84,1 milljarður. Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir þetta fyrir almenna borgara þessa lands? Hvað þýðir þetta fyrir skattgreiðendur? Ég held við megum spyrja okkur aðeins oftar að því af því að það eru nú einu sinni þeir sem borga brúsann. Þetta þýðir að stór hluti tekna sem almenningur vinnur hörðum höndum fyrir á Íslandi á hverjum degi fer ekki í sameiginlega sjóði heldur brennur vinnuframlagið og tekjurnar upp í vaxtakostnaði. Þetta er hreint og beint grátlegt, sérstaklega þegar ráðstöfunartekjur heimilanna eru ekki meiri en raun ber vitni. Margir berjast í bökkum við að ná endum saman um hver mánaðamót. Vaxtatekjur eru 20,8 milljarðar og vaxtajöfnuðurinn því 63 milljarðar. Vaxtajöfnuðurinn er í rauninni 20 milljörðum hærri en hann var fyrir tveimur árum sem er mikil hækkun milli ára og fyrir liggur tæplega 8 milljarða kr. hækkun á vaxtagjöldum á næsta ári.

Það er virkileg eftirsjá í þessum fjármunum í vaxtakostnað að mínu mati og þess vegna held ég að við ættum að leggja aðaláherslu á að greiða niður vexti því að þá erum við fljótari að koma okkur út úr þessu og getum farið að setja fjármuni á rétta staði, á þá staði sem skipta máli, í kjarnastarfsemi ríkisins.

Það liggur fyrir að skuldir ríkissjóðs eru miklar og af því leiðir þessi staða. Samkvæmt ríkisreikningi í árslok 2011 námu langtímaskuldbindingar, skuldir og lífeyrisskuldbindingar, og skammtímaskuldir ríkissjóðs alls 1.916 milljörðum kr. Að frádregnum lífeyrisskuldbindingum námu þær um 1.543 milljörðum, þ.e. um 95% af landsframleiðslu þessa árs. Vandamál Íbúðalánasjóðs er ekki inni í þessum tölum og það er varla tími hér til að fara í þá umræðu. Mikið hefur verið komið inn á vanda Íbúðalánasjóðs og þetta telur ekki bara í hundruðum milljóna heldur milljörðum ef ekki tugum milljarða. Vonandi er þetta ekki eins slæmt og menn hafa spáð, að þetta fari í á annað hundruð milljarða. Það væri alveg agaleg niðurstaða.

Hagvaxtarspá fyrir næsta ár er á bilinu 2,5–2,9%. Því miður virðist hagvöxturinn ekki vera drifinn áfram af auknum fjárfestingum heldur af einkaneyslu þar sem svo virðist sem heimilin hafi gengið á innstæður í bönkum, en núvirtar innstæður hafa lækkað um tæpa 300 milljarða á síðustu tveimur árum. Á sama tíma hefur verið stöðugt útflæði af séreignarsparnaðarreikningum, um 80 milljarðar. Það er verulegt áhyggjuefni að landsmenn gangi svona hratt á sparnað sinn á svo skömmum tíma.

Og hvað gerir ríkisstjórnin?

Forgangsröðun hennar kemur skýrt fram í fjárlögum. Hvað blasir við hverjum sem horfa vill? Það sem blasir við er að það er komið að kosningavetri. Við þekkjum þetta frá fyrri tíð en þá var kannski líka aðeins betri tíð og þó að við sjáum fram á smábata í hagkerfinu þýðir það ekki að það sé kominn tími til að gera svolítið vel við sig og leyfa sér að hampa gæluverkefnunum.

Nú á að nýta annars vegar sölu eigna og hins vegar arðgreiðslur ríkisfyrirtækja og opinberra hlutafélaga til að útdeila fögrum fyrirheitum undir heitinu fjárfestingaráætlun. Þetta hefur örugglega verið það skemmtilegasta sem ríkisstjórnin fór í í fjárlagaferlinu, hún hefur örugglega verið dansandi af gleði að geta spreðað aðeins, en þarna eru nokkrir áhugaverðir og mjög kostnaðarsamir fjárfestingarkostir sem ríkisstjórnin leggur áherslu á meðan við erum enn að glíma við vanda í kjarnastarfsemi ríkisrekstrarins. Nærtækt vandamál sem hefur verið mikið í umræðunni er að starfsfólkið á Landspítalanum er ekki til í að vinna þar lengur, ekki fyrir þau laun sem því standa til boða. Við erum að missa menntafólkið úr landi, það sér ekki fram á að standa undir skuldbindingum sínum á þeim kjörum sem því bjóðast í dag.

Á meðan sjáum við steypu og aftur steypu efst í forgangsröðuninni. Þegar ég segi steypu meina ég virkilega steypu eins og í húsum. Það á að byggja ný hús, það á náttúrlega að byggja nýjan spítala og við vitum ekki enn þá nákvæmlega hvað hann kemur til með að kosta. Til stendur að byggja nýtt öryggisfangelsi, ég vildi að við þyrftum ekki á þessum tíma að setja peningana okkar í það að loka fleiri þegna inni og byggja hús utan um þá en það er staða sem við virðumst búa við.

Eitt af því sem ríkisstjórnin setur ofarlega á forgangslistann er bygging húss íslenskra fræða fyrir 800 milljónir. Við erum að tala um 1 milljarð í nýja húsbyggingu og því miður held ég að á þessum tímapunkti getum við ekki leyft okkur það. Jafnframt eru þarna önnur dæmi sem á að leggja áherslu á, svo sem bygging þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri og grænkun íslenskra fyrirtækja og svo er sýningin fyrir Náttúruminjasafn Íslands, allt hleypur þetta á hundruðum milljóna þannig að þetta eru miklir peningar. Ég hvet þingmenn og sérstaklega stjórnarliða til að hugsa um fjárlögin eins og þessir peningar væru þeirra eigin. Ekki gleyma því að það er fólk sem stendur á bak við þessa fjármuni. Það er fólk sem er búið að vinna hörðum höndum fyrir þeim fjármunum sem menn eru að útdeila hér og meðan skattborgarar þessa lands ná ekki að borga fyrir húsnæðið sem þeir búa í og bara rétt komast af geta menn ekki leyft sér að fara í svona byggingar eða fínar sýningar upp á 500 milljónir eða stofna hvers konar sjóði sem ég kalla lúxussjóði á þessum tímapunkti.

Það væri mjög gaman að geta sett á fót myndlistasjóð, tónlistarsjóð og atvinnuleikhópasjóð en við höfum fullt af sjóðum. Við erum enn þá með listamannalaun, þó að ég sé ekki mjög fylgjandi þeim held ég að þau ættu að duga í bili. Við eigum ekki að bæta í þetta akkúrat á þessum tímapunkti. Við höfum hreinlega ekki efni á því. Við ættum að setja fjármuni í að greiða niður vaxtakostnað. Það er það sem við eigum að gera fyrst og fremst og reka kjarnastarfsemina. Hér hefur verið minnst á það að augljóslega telst löggæsla partur af kjarnastarfsemi hér, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, velferðarkerfið. Við getum ekki leyft okkur lúxus eins og birtist í fjárlagafrumvarpinu. Það er glapræði að ákvarða hvernig á að verja þessum arði ríkisfyrirtækja sem við vitum ekkert enn þá hvort muni skila sér að fullu, bæði hvað varðar sölu eigna og arðurinn af ríkisfyrirtækjunum.

Ef ríkisbankinn Landsbankinn á eftir að skila svona miklum hagnaði hefði ég gjarnan viljað taka sérstaka umræðu um það hvort þessi peningur ætti ekki að fara bara aftur inn í bankann og minnka byrðar viðskiptavina hans, bæði fyrirtækja og einstaklinga. Maður veit að staðan er ekkert góð. Það væri nær að gera það en að setja pening í bókmenntasjóð eða hönnunarsjóð. Ég held að við ættum að skoða þetta með öðrum gleraugum. Menn tala mjög mikið í þessari vinstri stjórn um kynjagleraugu og alls kyns gleraugu en ég held að menn ættu að taka niður gleraugun og reyna að sjá hvernig ástandið er raunverulega, reyna að skilja hvernig þegnar þessa lands hafa það og hver þeirra vandamál eru. Ég ætla ekki að minnast á borgina sem aldrei fannst. Ég held það væri nær að við nefndum hana Atlantis hér eftir, skjaldborgina góðu.

Við verðum að forgangsraða fyrir fjölskyldurnar og heimilin í landinu, það er það sem skiptir máli, fólkið sem byggir landið, fólkið sem vill lifa og búa á Íslandi. Við viljum ekki missa fólkið okkar úr landi. Við getum ekki látið stjórnast af skammtímahugsunum og þess vegna ættum við að láta niðurgreiðslu vaxtagjalda vera mikilvægasta verkefni okkar á næstu missirum.