141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þar sem ég komst ekki að í störfum þingsins við upphaf þingfundar langar mig að gera að umtalsefni stöðu þingsins. Hér komu sumir hv. þingmenn og minntu á þá þingsályktunartillögu sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum um að efla, verja og styrkja bæri stöðu þingsins. Ég velti fyrir mér nú við 2. umr. fjárlaga: Hefur staða þingsins styrkst í umræðum um fjárlög? Nei, mín skoðun er sú að það hafi ekki gerst.

Ef við förum aðeins yfir það hverjir hafa tjáð sig í 2. umr. um fjárlög eru menn hér uppteknir við það að pexa um hvort umræðan eigi að standa í tvo, þrjá, fjóra, fimm daga eða einn dag, hvenær sé eðlilegt að henni ljúki og hvað hún taki langan tíma og sýnist sitt hverjum í þeim efnum.

Ég hef í fyrri ræðum mínum reynt að kalla eftir hv. þingmönnum eins og til að mynda stjórnarliðum í Norðvesturkjördæmi, bara til að það liggi alveg fyrir hvers óskað er. Ég hef kallað eftir þeim sérstaklega í sambandi við tvö mál og beðið þá um að útskýra það fyrir mér hvernig á því standi að þeir tali um að þetta séu glæsileg fjárlög og það sé ekkert nema uppgangur fram undan. En svo koma hv. þingmenn bara hlaupandi hingað inn til að greiða atkvæði um lengd þingfundar og hverfa svo eins og dögg fyrir sólu.

Ég var að hugsa hvort ekki væri eðlilegt að við settum bara upp stimpilklukku eins og á venjulegum vinnustöðum þar sem fólk mætti til vinnu og tæki þátt í þeim umræðum sem eiga sér stað, sérstaklega ef verið væri að kalla eftir því.

Ef við tökum bara stóru myndina og skilning Alþingis á stöðu ríkisfjármálanna: Hver er hún? Hvaða upplýsingar hefur þingið? Ég átta mig ekki alveg á því hverjir þykjast hafa þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sjá stóru myndina. Hér eru einstaka hv. þingmenn uppteknir við að ná inn einstaka fjárveitingum, með fullri virðingu fyrir þeim, þeir gera það auðvitað, en þeir eiga líka að taka þátt í umræðunni um hver raunveruleg staða ríkissjóðs er. Hér hefur til að mynda enginn hæstv. ráðherra tekið þátt í umræðunni, enginn. Samt koma þeir hingað upp og það eina sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur gert í umræðunni er að gera athugasemdir við að þeir tali of lengi sem rækja þingskyldur sínar og taka þátt í umræðunni og benda á það sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.

Hver skyldi nú vera stóra myndin? Við skulum aðeins fara yfir það. Mig langar að gera það í þessari ræðu af því að hér er verið að tala um að styrkja stöðu þingsins og verja hana. Það var auðvitað niðurstaðan úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar með þeirri þingsályktun sem samþykkt var hér með öllum greiddum atkvæðum. Hver var gagnrýnin? Gagnrýnin á Alþingi var sú að það hefði ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni nægilega vel. Um það er hægt að nefna mörg dæmi og betur hefði verið hlustað á varnaðarorð.

Ég á sæti í hv. fjárlaganefnd og fyrir skömmu heyrði ég þegar seðlabankastjóri sagði í fréttum að skuldabréf milli gamla og nýja bankans mundi hugsanlega ógna fjármálastöðugleika landsins nema gripið yrði til þess að draga úr greiðslubyrði þess. Það hefur til að mynda aldrei verið kynnt í fjárlaganefnd. Það er líka athyglisvert í ljósi þess að ef við skoðum skilmálana á því skuldabréfi hefur það hefur forgang á innstæður í bönkunum. Það er nokkuð merkilegt.

Nú er starfandi ríkisfjármálahópur eða ráðherrahópur um ríkisfjármál, skipaður af ráðherrunum, sem segja má að hafi sama hlutverk hjá ríkisstjórninni eins og hv. fjárlaganefnd í þinginu. Fjárlaganefnd á að fylgjast með framkvæmd fjárlaga og reyna að meta stöðu ríkissjóðs. Ráðherranefnd um ríkisfjármál hefur ekki komið fyrrgreindum upplýsingum til fjárlaganefndar, aldrei, þannig að við sem sitjum fyrir hönd þingsins í sérnefnd, fagnefnd sem heitir fjárlaganefnd, höfum mjög takmarkaðar upplýsingar. Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ekki heildarsýn yfir stöðu ríkisfjármálanna, ég viðurkenni það bara, það fer ekkert á milli mála og ég reyni ekki að halda því fram að ég hafi hana. Ég stórefast um að nokkur hv. þingmaður hafi þá yfirsýn, að minnsta kosti ekki út frá þeim gögnum sem fram koma í fjárlaganefnd.

Það nefni ég sérstaklega vegna þeirrar ógnar sem að okkur stafar vegna gjaldeyrisins og þess gjaldeyrisójöfnuðar sem hér er. Við vitum um svokallaða snjóhengju sem er 1.200 milljarðar, plús það að útlendingar eiga, um 2.000 milljarða gjaldeyrir, þannig að greiða þarf út í gjaldeyri í kringum 3.000 milljarða, en þessir 2.000 milljarðar eru að stærstum hluta til skiptingar út úr þrotabúum bankanna. Hvernig á að standa skil á þeim gjaldeyri? Við sjáum að gjaldeyrisjöfnuðurinn er að minnka, hann minnkaði um 40% á fyrstu níu mánuðum ársins. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki nákvæmlega hvernig þessi mál eiga að leysast.

Lítur ríkisfjármálahópurinn þannig á málin, sem fylgjast á með og hafa yfirsýn yfir allt, að ekki þurfi að upplýsa fjárlaganefnd um neitt? Ég spyr því að ég veit ekki. Kemur ráðherrahópurinn til fundar og er þar skráð fundargerð, af því að við vitum hversu hættulegt það er að skrifa ekki fundargerðir? Ástæða þótti til að draga fyrrverandi hæstv. ráðherra fyrir landsdóm. Er það þá þannig að ríkisfjármálahópurinn kemur saman og segir: Jú, hér er ákveðið áhyggjuefni, þ.e. hvernig við eigum að standa skil á öllum þessum gjaldeyri og í raun og veru að framleiða hann. Þá er það bókað í fundargerð og seðlabankastjóra eða Seðlabankanum er falið að sjá um það. Virkar það þannig að þá sé bara málið út af borðinu og ríkisfjármálahópurinn þarf ekki að hafa áhyggjur af því frekar? Ég átta mig ekki á því.

Það er dálítið athyglisvert í ljósi þess að ef við segðum að Alþingi væri eins konar stjórn í fyrirtæki og framkvæmdarvaldið væri framkvæmdastjóri þess og síðan væri fjárlaganefnd undirhópur í stjórninni sem hefði það sérstaka markmið að fylgjast með þessum hlutum, þá átta ég mig ekkert á því hvernig þeir sem gegna þessum störfum, eins og t.d. mínu starfi, eiga að geta uppfyllt skyldur sínar við að fylgjast vel með þessum málum. Það gerum við ekki að mínu mati, alls ekki. Það eru alveg hreinar línur. Menn gera mjög lítið úr þeim upplýsingum og ábendingum sem fram hafa komið, en ég hélt að við værum búin að læra það í gegnum tíðina eða bara á undanförnum árum að við eigum að taka mark á þeim varnaðarorðum sem fram koma.

Það væri til að mynda mjög áhugavert fyrir hv. fjárlaganefnd að fara yfir öll minnisblöðin sem Seðlabankinn skrifaði í sambandi við fyrstu Icesave-samningana, hvernig átti að vera hægt að standa undir vaxtagreiðslum af því. Ég er ansi hræddur um að hægt væri að haka við margt sem ekki hefur gengið eftir. Þarna er umgjörðin og þarna er umræðan, hún er ekki dýpri en þetta. Þess vegna velti ég fyrir mér hvernig í ósköpunum maður geti haft yfirsýn yfir ríkisfjármálin, eða á það bara að vera þannig að þegar ríkisstjórnin er búin að „víla og díla“ með frumvarpið mánuðum saman og kemur síðan með breytingartillögur inn í þingið að þá eigi að afgreiða það því að þá sé umræðunni lokið?

Það er mjög áberandi að enginn hæstv. ráðherra hefur tekið þátt í umræðunni og örfáir stjórnarliðar þó svo að ég hafi kallað eftir einstaka hv. þingmönnum stjórnarliðsins, bara úr Norðvesturkjördæmi, til að útskýra tvo einfalda hluti, en þeir láta ekki sjá sig. Þeir hlaupa hér inn í sal og ýta á græna takkann þegar óskað er eftir því að þingfundur standi lengur. Svo hverfa þeir bara eins og dögg fyrir sólu. Þannig er umræðan og yfirklórið. Við þurfum að breyta vinnubrögðum með það að markmiði að við fáum alla inn í umræðuna og tökum málefnalega umræðu um þessi mál en sitjum ekki hér eftir tvö til þrjú ár í sömu sporum því að það eru mörg óveðursský á lofti. Og ég ætla að segja það einu sinni enn að það kæmi mér ekki á óvart að innan einhvers tíma, eftir tvö ár, þrjú ár eða eitt ár, kæmi hér annað bankahrun. Það kæmi mér bara ekkert á óvart, ekki neitt.