141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, þetta sýnir auðvitað það skilningsleysi sem birtist í fjárlagatillögum þeirra sem núna fara með fjármál ríkisins gagnvart þeim skólastofnunum sem ég hef gert að umtalsefni.

Hv. þingmaður sagði líka að þetta sýndi fádæma fávisku um þá starfsemi sem þar fer fram. Ég held að það hljóti að vera eitthvað slíkt sem býr hér að baki, ég trúi ekki að það sé illur hugur. Ég trúi ekki að það sé raunverulegur vilji meiri hluta fjárlaganefndar að búa til dæmis þannig um hnútana gagnvart Hólaskóla að þar verði menn að skella í lás ef þeir ætla að fara eftir fjárlagafrumvarpinu. Skella þar í lás 1. október, því ljóst mál er að það vantar 25% upp á fjárveitinguna frá ríkinu til þess að hægt sé að halda úti núverandi starfsemi.

Hv. þingmaður gerði fortíðina að umtalsefni og við skulum dvelja aðeins við hana. Það er alveg rétt að ég var um tíma ráðherra landbúnaðarháskólanna, ég var það í hálft ár. Ég átti nú ekki von á því að ég mundi gera nein kraftaverk á hálfu ári og kannski mundi ég ekki einu sinni gera kraftaverk þó ég hefði verið miklu lengur, ég er einfaldlega ekki þannig náttúraður að ég geti gert kraftaverk. Það eru aðrir stærri sem annast þá hluti, (Gripið fram í.) ég er ekki í þeim bisness eins og hér er gripið fram í fyrir mér. Engu að síður er það alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, það var gert ráð fyrir því að þegar skólarnir yrðu fluttir yfir til menntamálaráðuneytisins yrði reynt að taka á þeim vanda sem við væri að glíma.

Ég rakti það að á árinu 2007 var sérstök fjárveiting til Hvanneyrar, 70 millj. kr. Í valdatíma núverandi ríkisstjórnar er búið að taka hana tvöfalt til baka. Varðandi Hólaskóla er rétt að sá skóli fékk aukafjárveitingar og það var enn fremur stofnaður starfshópur til að marka skólanum stefnu, sem lýsti vilja þáverandi stjórnvalda gagnvart skólanum. Eins og menn muna auðnaðist okkur ekki að ljúka því verki að fullu. Skólinn fékk hins vegar fjárveitingar til þess að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla, sem dugðu þó ekki til.