141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og málefnalega umræðu um þetta fjárlagafrumvarp. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ef þetta fjárlagafrumvarp er það besta sem ríkisstjórnin getur boðið upp á þá er það mikill áfellisdómur um fyrri frumvörp sem ríkisstjórnin hefur boðað og kynnt.

Það sem hins vegar blasir við þegar við erum komin á lokametra þessa kjörtímabils er að ætlunarverk ríkisstjórnarinnar, að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs, hefur ekki tekist. Við sjáum í tölum sem liggja fyrir í þingskjölum að vaxtabyrðin hefur þvert á móti verið að aukast ár frá ári og verður til dæmis meiri á næsta ári en hún er á þessu ári. Það gerist þrátt fyrir að vaxtakostnaður ríkissjóðs er á margan hátt dulinn, vegna þess að ríkissjóður býr við þau skilyrði að við erum með gjaldeyrishöft. Þau valda því að þeir sem þurfa að ávaxta fé sitt eiga ekki margra kosta völ sem stuðlar að lægri vaxtakostnaði almennt talað í samfélaginu.

Það má hins vegar búast við því að þetta geti breyst þegar gjaldeyrishöftin hverfa sem vonandi verður sem fyrst. Ekki vegna þess að ég sé að fagna því að það muni þá leiða til hærri vaxta heldur vegna þess að gjaldeyrishöftin valda margs konar tjóni. Mér sýnist að nú séu menn komnir að ákveðnum endimörkum. Hv. þingmaður kom inn á að það sem við þyrftum að gera væri að framleiða meira til að geta staðið undir þessum mikla kostnaði, bæði vaxtakostnaði fyrirtækja, almennings og ríkisins en ekki eru miklar líkur á að það sé að gerast.

Eins og hv. þingmaður rakti þá er ríkisstjórnin fremur að leggja steina í götu hvers konar framkvæmda. Hann nefndi til dæmis nýja byggingarreglugerð sem á að taka gildi eftir þrjár vikur og mun gera það að verkum að húsnæðiskostnaður hækkar og lán heimilanna munu hækka, verðtryggð lán um 3–4%. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé að tala fyrir því að leiðin út úr þessu sé ekki sú leið sem farin hefur verið, með skattahækkunum og misráðnum niðurskurðarhugmyndum, heldur fremur hitt að fara af stað í auknar framkvæmdir sem geti þá gert það að verkum að við búum til meiri umsvif í samfélaginu og búum þannig til auknar tekjur fyrir ríkissjóð.