141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég komst ekki svo langt í ræðu minni. Ég ætlaði að fjalla um fjárfestingaráætlunina og bera hana saman við til að mynda þær hugmyndir sem koma fram í McKinsey-skýrslunni. Þar er talað um að við eigum að horfa til þeirra þátta sem við erum góð í og reyna að efla atvinnustigið á þeim sviðum. Það kom í ljós í þeirri skýrslu að við erum góð í matvælaframleiðslu, sérstaklega hvað varðar fiskveiðar, stjórn fiskveiða og fiskvinnslu. Við erum góð í orkugeiranum og við erum ágæt í þeim hluta alþjóðlegrar samkeppni sem við erum með, sá partur er bara of lítill, en það er augljóst langtímaverkefni.

Við erum hins vegar mjög léleg í 60–70% af þeim atvinnufyrirtækjum eða atvinnustarfsemi í landinu sem við tölum eiginlega aldrei um. Það er alltaf verið að níðast og hamast á þeim þáttum sem við erum þó góð í og eru að skila okkur einhverjum arði. Ég ætlaði einmitt að fjalla um það í ræðu minni ef ég hefði haft tækifæri til og geri það kannski í síðari ræðu. Það að setja upp fjárfestingaráætlun sem byggir á því að setja peninga inn í einhverja hluti sem eru góð verkefni út af fyrir sig en skila engri arðsemi, skila ekki auknum útflutningstekjum, skila ekki tækifærum til að greiða niður höfuðstól af lánum til að lækka vaxtabyrðina, eru hins vegar bara útgjaldahvetjandi. Eins og Seðlabankinn hefur bent á í umsögn sinni eða hvort það var í Peningamálum, eða hvort það var hvoru tveggja, þá er einmitt leiðin út úr þessu — og við höfum bent á það allan tímann við framsóknarmenn að stefna ríkisstjórnarinnar sé röng.

Þar segir að það að ganga sífellt lengra og lengra í skattheimtu og niðurskurði sé ekki hægt. Það sé búið að sýna sig margoft að það sé ekki leiðin út úr kreppunni. Það sé bara ein leið, það að snúa hjólunum við, stækka kökurnar, stækka skattkökurnar og auka þar af leiðandi framleiðnina í samfélaginu. Þannig að við getum staðið undir þeim skuldum sem við erum með og helst þurfum við að gera það nokkuð hratt til að (Forseti hringir.) lækka skuldabyrðina og vaxtabyrðina. Það gengur auðvitað ekki að við séum að setja 84 eða 88 milljarða út úr ríkissjóði (Forseti hringir.) á hverju ári í vaxtagjöld.