141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að á sama tíma og fyrir liggur í sjálfstæðum úttektum að við erum sérstaklega góð í fiskveiðum og við erum sérstaklega góð þegar kemur að orkugeiranum þá skuli það einmitt vera þessir þættir atvinnulífsins sem ríkisstjórninni er sérstaklega uppsigað við. Við sjáum að ríkisstjórnin hefur verið að leggja fram misráðnar hugmyndir varðandi fiskveiðimálin. Sem betur fer hefur hún ekki komist áfram með margar af þeim. Sömuleiðis vitum við að meðal annars í nýrri rammaáætlun hefur verið reynt að leggja fleiri steina í götu frekari uppbyggingar á orkusviðinu.

Þess í stað er boðað í þessu nýja plaggi það sem talsmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa kallað skóflustunguaðferðina. Það er að leggja af stað með ný fjárfestingarverkefni sem aftur munu kalla á aukinn rekstrarkostnað þegar fram í sækir. Við þekkjum nú pínulítið dæmi, Hörpu, sem var mjög metnaðarfull hugmynd á sínum tíma. Hún var hugsuð sem uppbygging við ferðaþjónustu og menningarmál. Síðan sjáum við núna á tölum að hún kallar aftur á móti á aukinn rekstrarkostnað. Við sjáum tölurnar til dæmis hjá Sinfóníuhljómsveitinni, sem þarf að fá stóraukin framlög bara til að geta staðið undir húsnæðiskostnaðinum. Húsið eykur í sjálfu sér ekki menningarsköpun að því leytinu þó að aðbúnaður hljómsveitarinnar sé betri og aðbúnaður þeirra sem koma á tónleikana sé betri, en svona er þetta dálítið umsnúið.

Annað atriði vil ég nefna líka af því að hv. þingmaður kom inn á húshitunarmálin. Það er verið að leggja til 175 millj. kr. hækkun á niðurgreiðslum til húshitunar, en ég vil vekja athygli á því að frá árinu 2008 hafa niðurgreiðslur til húshitunar lækkað um 530 millj. kr. Hérna er verið að stíga skref til baka, á kosningaári vel að merkja, sem er augljóst. Stíga skref til baka sem nemur einum þriðja. Eftir sem áður er greinilega ætlunin að fólk búi við sligandi húshitunarkostnað og það sýnir ákveðna forgangsröðun, því það er auðvitað skýr forgangsröðun (Forseti hringir.) að níðast sérstaklega á því fólki sem býr núna við hæstan húshitunarkostnað.