141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja aftur máls á þessu með húshitunina og einmitt að niðurgreiðslan sé bara þriðjungur þeirrar sem var. Ég held það komi fram í skýringum meiri hlutans að skattur upp á 12 aura sem lagður er á raforkusölu og eins á jarðvarmann muni skila um 2 milljörðum í tekjur til ríkisins. Þá sjáum við að þessar 175 millj. kr. sem á að setja þarna inn — það eru auðvitað skýr skilaboð til þeirra sem búa á köldum svæðum hver vilji meiri hlutans er og sýnir þeirra forgangsröðun.

Það er líka rétt sem kom fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni með þær greinar sem við stöndum okkur vel í, sem kemur mjög skýrt fram í McKinsey-skýrslunni. Hún er um margt áhugaverð og óskiljanlegt að hún skuli ekki fá meiri umræðu og umfjöllun í samfélaginu í lengri tíma. Í henni er margt áhugavert að sjá, það er ekki bara að ríkisstjórnin hefur lagt sérstaklega steina í götu alls þess sem tengist orkufrekum iðnaði, orkugeiranum, orkuöflun, stóriðju og síðan öllu því sem snýr að fiskveiðunum, heldur töluðu menn til að byrja með mikið um ferðaþjónustuna. Að hún væri mjög jákvæð og góð, svo á einhverjum ákveðnum tímapunkti þegar ferðaþjónustan gat farið að standa á eigin fótum, það kemur reyndar fram í þessari McKinsey-skýrslu að þar er framleiðnin of lág vegna þess að það vantar fleiri ferðamenn, það vantar meiri og betri nýtingu. Þá kemur einmitt ríkisstjórnin fram með skattahugmyndir og rökin fyrir skattahugmyndinni eru að það eigi að draga úr fjölgun ferðamanna. Það á sem sagt að koma í veg fyrir að nýtingin batni, að framleiðnin verði betri. Það er alveg óskiljanlegt að ríkisstjórnin geti ekki áttað sig á því að (Forseti hringir.) til þess að við komumst út úr þessari kreppu þarf að stækka kökurnar, framleiða meira, auka framleiðni og þar með getum við staðið undir þeim skuldum sem við búum við, en það getum við ekki ef fram heldur sem horfir.