141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðu hans. Aldrei er of oft kveðin sú Lilja hér að benda á að þetta séu sem sagt framtíðarfjárlög sem ný ríkisstjórn kemur til með að þurfa að standa við en ekki sú ríkisstjórn sem nú situr.

Úr því þingmaðurinn minntist á að veiðileyfagjaldið væri byggt á eins til tveggja ára gömlum tölum úr sjávarútveginum er rétt að minna á að við vitum ekki hvernig þróun fiskmarkaða verður á næstu mánuðum og árum vegna þess að mikil kreppa er að ganga yfir Evrópu og fiskur er lúxusvara þar. Fregnir berast af því að fisksala dregst mjög saman á heimsmörkuðum. Þar með erum við komin með ákveðinn forsendubrest ef það ástand heldur áfram. Svo er náttúrlega ekkert vitað hvað hin hliðin af þessum framtíðarsjóði á að byggja á varðandi sölu fjármálafyrirtækja.

Þetta er jú nokkurs konar hókus pókus fjárlög, ég tek undir það. Miðað við fréttir kvöldsins í kvöld virðist hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafa skotið neyðarblysi á loft frá röngum stað því að það kom fram í fréttunum að fyrst og fremst væru það vandræði hans með sjávarútvegsfrumvarpið sem mundi valda þessu ergelsi hans hér í dag en ekki endilega umræða stjórnarandstöðunnar um fjárlög.

Úr því að þingmaðurinn fór aðeins yfir málefni Landsvirkjunar er það svo að ríkisábyrgð hvílir á Landsvirkjun upp á rúma 344 milljarða. Ríkið þurfti að taka yfir skuldbindingar frá Reykjavík og Akureyrarbæ vegna þess að flutningur var á eignarhaldi til ríkisins. Talið er að Kárahnjúkar hafi einungis kostað um 120 milljarða. Hefur þingmaðurinn (Forseti hringir.) einhverja hugmynd um það hvers vegna ríkisábyrgðin er svona gríðarlega há á Landsvirkjun miðað við það að (Forseti hringir.) þetta er fyrirtæki í góðum rekstri með tekjur og skuldir í sambærilegri (Forseti hringir.) mynt?