141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið.

Já, það er akkúrat þetta sem ég meinti í andsvari mínu, þ.e. að verið sé að áætla tekjur fyrir ríkissjóð einhvern veginn út í loftið, byggðar á gömlum tölum og vera svo að útdeila þeim áður en þær eru komnar, búnar að skila sér í ríkissjóð, og útdeila þeim í nýju fjárlagafrumvarpi þar sem aðgerðir ná allt fram til ársins 2015.

Rétt til að rifja það upp, af því við erum að tala um Landsvirkjun og stóriðjan tengist henni, að mér er það minnisstætt þegar hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lagði það til við stóriðjuna að taka fyrir fram greidda skatta af stóriðjunni alveg fram til ársins 2018. Því var komið inn í ríkissjóð á þeim tíma, ég man ekki hvort það var í fjárlögum 2010 eða 2011, og þá var samið við stóriðjuna um að fá fyrir fram greiddar skatttekjur með það fyrir augum að jafnvel yrði eitthvað slakað á því síðar meir. En það er náttúrlega búið að brjóta það samkomulag.

Það er því búið að taka rosalegan framtíðarreikning inn í þessi fjárlög, sérstaklega miðað við öll þau verkefni sem lagt er til í breytingartillögunum að fara eigi í. Ég nefni þar til dæmis hið svokallaða græna hagkerfi eða hvað þetta heitir allt saman og græn kynjuð hagstjórn og það sem maður kallar gæluverkefni, á meðan fréttir berast af því í kvöldfréttum að ekki sé nokkur leið að hækka til dæmis laun hjúkrunarfræðinga. Ég verð að koma því að hér á meðan við sjáum alls konar vitleysu í breytingartillögunum.

Ég er hugsi yfir orkufyrirtækjunum, bæði Landsvirkjun og Orkuveitunni. Hér kemur fram að heildarskuldir hjá sveitarfélögum hækkuðu snögglega og skuldir af heildartekjum sveitarfélaga árið 2011 voru 243% en ef Orkuveita Reykjavíkur er tekin út fyrir þann ramma eru þær 140%. Skuldir Orkuveitunnar eru líka rosalega miklar. En (Forseti hringir.) munurinn á þeim fyrirtækjum er náttúrlega sá að annað fyrirtækið hefur tekjurnar í íslenskum krónum (Forseti hringir.) og skuldir í erlendum en Landsvirkjun hefur þó þetta hlutfallslega jafnvægi í (Forseti hringir.) tekjum og skuldum.