141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið því að hún vakti athygli á því sem er mikilvægt, þ.e. að í öllum fyrirtækjarekstri og hjá einstaklingum líka gæti menn þess að hafa skuldir í sömu mynt og þeir hafa tekjur í. Á því sviði hefur Orkuveita Reykjavíkur gjörsamlega brugðist. En við erum ekki að ræða það því það heyrir undir skattgreiðendur í Reykjavík sem borga þann brúsa.

Nú gæti það gerst að stjórn Landsvirkjunar gerði einhver mistök. Það er dálítið vandlifað í heiminum þar sem álverð sveiflast upp og niður og gengið sveiflast upp og niður og menn þurfa að skoða vaxtaprósentur og annað slíkt, það er mjög erfitt og vandlifað að stýra svona stóru fyrirtæki. Ég vildi gjarnan, herra forseti, að íslenskir skattgreiðendur og íslenska ríkið taki ekki áhættuna af því. Það hefur ekki gefist vel. Ég hef þá alla vega varað við því — nákvæmlega eins og ég varaði við Íbúðalánasjóði 2004 — að íslenskir skattgreiðendur framleiði rafmagn.

Í frumvarpinu sem er besta frumvarp þessarar ríkisstjórnar, sem er reyndar ekki víst að sé gott, kemur ýmislegt fram, þ.e. fjárfestingaráætlun og Fæðingarorlofssjóður, það er verið að gera alls konar svona góða hluti. En það spurning sem ég hef velt upp en getur hv. þingmaður ekki svarað nú: Skyldu íslenskir kjósendur falla fyrir svona trixi? Það er spurningin. Skyldu íslenskir kjósendur ekki átta sig á því að allt sem kemur í þessari fjárfestingaráætlun, græni fjárfestingarsjóðurinn o.s.frv. er framtíðarmúsík? Það er byggt á veiðigjaldi sem hugsanlega kemur ekki. (Gripið fram í: Akkúrat.) Fæðingarorlofssjóðurinn, það er eitthvað sem næsti fjármálaráðherra þarf að greiða. Spurningin er sú hvort íslenskir kjósendur átti sig ekki á því. (Forseti hringir.)