141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Ég er algjörlega sammála honum í því að hér þarf fyrst og fremst að gera átak í að borga niður ríkisskuldir, sérstaklega í ljósi hás vaxtakostnaðar sem ríkissjóður ber og fer hækkandi fram á næstu ár. Það er svo sannarlega verið að taka víxil inn í framtíðina með þessum fjárlögum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var sérstaklega búinn að vara við því að það yrðu útgjaldamikil fjárlög akkúrat á kosningaárinu, en samt virðist ríkisstjórnin einhvern veginn fá svigrúm til að hafa það svona.

Þingmaðurinn fór yfir lífeyrissjóðakerfið og þær skuldbindingar sem liggja að baki og eru raunverulega ekki færðar í ríkisreikning, heldur er þetta undirliggjandi vandamál, snjóbolti sem heldur alltaf áfram að stækka og stækka og vinda upp á sig og verður alltaf meiri skuldbinding hjá ríkissjóði. Þá er mjög athyglisvert að á meðan þessi ríkisskuld safnast upp er búið að fara inn í almannatryggingakerfið, það var gert með lögum 1. júlí 2009, og skattleggja það kerfi. Núna eru orðin mikil skerðingarákvæði hjá því fólki sem þiggur annars vegar greiðslur almannatrygginga, þessar svokölluðu grunnbætur, og hins vegar lífeyrissjóðsbætur. Er það allt að króna á móti krónu.

Ríkissjóður safnar skuldum í gegnum lífeyrissjóðakerfið en skattleggur svo hina hliðina. Þess vegna spyr ég þingmanninn: Hvert er álit hans á því að hér verði tekið svolítið djarft skref með það lífeyrissjóðakerfi sem við búum við nú um stundir og er áætlað að fari upp í 15% af launum á almenna vinnumarkaðnum á bilinu 2015–2016, tölur sem atvinnulífið ræður örugglega ekki við, að við stígum (Forseti hringir.) það skref að leggja niður núverandi lífeyrissjóðakerfi og tökum hreinlega upp (Forseti hringir.) gegnumstreymissjóðskerfi eins og tíðkast í nágrannalöndunum?