141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kom mjög skýrt fram í umræðu um málið í fyrra þegar lagt var til að hækka vikmörkin til að bregðast við vandanum sem A-deildin er í núna. Ef við horfum raunhæft á málið er áfallin skuldbinding 10 milljarðar í dag (Gripið fram í.) — það sem er skuldbinding sjóðsins inn í framtíðina, látum það nú liggja milli hluta.

Hverjar eru líkurnar á að A-deildin geti rétt sig af með þennan halla? Hann er alltaf að aukast. Ég fór yfir það áðan í andsvari í sambandi við umhverfi sjóðsins til fjárfestingar, möguleikana. Það er engin skynsemi í öðru en að greiða að minnsta kosti þessa milljarða inn, enda lögðum við það til í fyrra að það yrði gert í staðinn fyrir að hækka vikmörkin, en þetta er bara með þessum hætti.

Það er líka rétt, sem hv. þingmaður kom inn á, með þetta pósitífa ákvæði. Skilningur sumra var mjög skýr á því, þ.e. að þetta bæri að gera umsvifalaust og væri skylda stjórnar. Þess vegna var ég að draga þetta fram hér áðan með stöðu þess góða fólks sem þarna er. Þurfum við ekki að breyta þessu, hugsa þetta upp á nýtt? Að hafa starfsmenn ráðuneytisins, með fullri virðingu fyrir þeim einstaklingum — ég er bara að hugsa um þeirra eigin hag, því að auðvitað er maður hugsi yfir því þegar fulltrúar launþega koma inn til að láta fella tillögu sem er vitað að verður felld, bara út af sinni persónulegu stöðu þannig að menn lendi ekki í vandræðum í framtíðinni, út af þessum pósitífu ákvæðum, eins og hv. þingmaður benti á, í lögunum um A-deildina.

Þetta er umhugsunarefni. Ég segi fyrir mína parta að mér leið mjög óþægilega og hafði fulla samúð með því ágæta fólki sem sett er þarna inn af því við vitum — ég ætla ekki að fullyrða það, en eigum við ekki að segja að séu mjög miklar líkur á því — að sá sem ræður á endanum er hæstv. ráðherra.