141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var einmitt til að auka agann á A-deildinni, til að hún stæði raunverulega undir sér, að þetta ákvæði var sett í lögin. Það átti að vera agi og stjórninni var falið það af hálfu löggjafans að standa vörð um þann aga. Hún gerði það ekki. Í fjölda ára var vitað hvert stefndi af því að alla tíð hefur verið halli á þessari A-deild. Þarna hafa verið ágætismenn í stjórn eins og hæstv. innanríkisráðherra sem var formaður stjórnar í mörg ár. Hann átti líka að laga þetta. Það er athyglisverð spurning hvort stjórnin er ábyrg ef hún gerir ekki neitt. Eru stjórnarmenn persónulega ábyrgir fyrir litlum 57 milljörðum sem vantar í dag? Eru þeir persónulega ábyrgir fyrir því eða er það ráðherrann sem skipaði þá í stjórnina? Þetta er hlutur sem þarf að skýra.

Ég vil að menn fari að sýna ákveðinn aga í ríkisfjármálum og fari (Forseti hringir.) að lögum og stjórnarskrá.