141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom töluvert inn á þetta í ræðu minni þar sem ég talaði um að þegar A-deildin var stofnuð ætluðu menn ekki að lenda í sömu förunum og með B-deildina. En því miður, við höldum alltaf áfram. Það er þessi hugsunargangur, þessi þankagangur, þetta gerist með þeim hætti.

Hver er breytingin? Ég segi fyrir mína parta að ég sé enga breytingu. Hver er breytingin? Við vitum af risavöxnum skuldum ríkissjóðs og skuldbindingum. Við vitum af 84 milljörðum í vaxtagjöld á næsta ári. Nei, hver eru fyrstu viðbrögðin? Að byggja hús fyrir 4 milljarða, eða 5 milljarða. Á sama tíma er verið að setja í fjárlögin 400 milljónir til að rétta Hörpu af. Síðan á setja 500 milljónir í Náttúruminjasafn. Þetta minnir á foreldra sem kvarta undan því að eiga ekki mat fyrir börnin sín en fara síðan út í búð og kaupa sér sígarettur og koma við í ríkinu til að kaupa sér brennivín. Þetta er svipað. Þetta er einhver lenska sem maður skilur ekki.