141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að spár ríkisins á undanförnum missirum um tekjur af iðnaði hafa ekki allar, því miður, gengið eftir. Það er ekki síst vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Ég er sammála hv. þingmanni um aðkomu ríkisvaldsins að því leytinu til að það eru ákveðnir hlutir sem ríkisvaldið verður að taka þátt í við uppbyggingu. Ríkinu ber að skapa rammann til þess að það sé hægt að koma hlutum af stað, en svo er hitt sem er miklu mikilvægara, að ríkið þvælist ekki fyrir. Og ríkið er svo sannarlega búið að þvælast fyrir ef ég horfi á stóriðjuframkvæmdir og uppbyggingu orkufreks iðnaðar í mínu heimahéraði á Suðurnesjum, þar er ríkið aldeilis búið að tefja fyrir og þvælast fyrir á öllum stigum. Við þurfum ekki annað en ræða sameiginlegt umhverfismat sem hæstv. umhverfisráðherra setti suðvesturlínur í á sínum tíma og svo mætti lengi telja.

Ef Helguvík hefði fengið að vera í friði fyrir þessari ríkisstjórn og ef uppbyggingin hefði verið samkvæmt áætlun værum við að horfa á miklu meira tekjustreymi í ríkissjóð. Það er gert ráð fyrir að Helguvík skapi milljarð á mánuði í tekjur fyrir ríkissjóð, 12 milljarða á ári, á uppbyggingarstiginu. Það eru engir smápeningar.

Hlutverk ríkisins, af því að þingmaðurinn spurði um það, er í uppbyggingu innviða, t.d. við uppbyggingu (Forseti hringir.) hafnarmannvirkja. Þar er enn eitt dæmið sem ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) svikið varðandi álverið í Helguvík.