141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er feginn að heyra af því að hv. þingmaður er ekki harðlínufrjálshyggjusinni og telur að ríkið eigi að hafa aðkomu að uppbyggingu atvinnumála. Ég er líka sammála því mati og þeirri staðreynd, leyfi ég mér að segja, að það eigi að fjárfesta af hálfu ríkisins í verkefnum sem skapa þeim mun meiri tekjur til lengri tíma litið. Það eigi að forgangsraða með þeim hætti að ríkið fjárfesti í slíkum verkefnum, ekki hvað síst þegar menn standa frammi fyrir efnahagsvanda eins og núna.

Aðkoma ríkisins að atvinnuverkefnum getur, í grófum dráttum, verið þrenns konar. Í fyrsta lagi getur ríkið þvælst fyrir eins og hv. þingmaður nefndi og við höfum því miður séð allt of mörg dæmi um á undanförnum árum. Í öðru lagi getur ríkið skapað stöðugleika, haldið sig til hlés, gefið mönnum frið, það hefur svolítið vantað upp á það. En í þriðja lagi getur ríkið komið beint að verkefnum, ýmist með uppbyggingu innviða eins og því miður hefur skort töluvert á, eða með því að greiða fyrir verkefnum efnahagslega og styrkja hinar efnahagslegu forsendur verkefnanna jafnvel með lánveitingum eða eiginfjárframlagi. Það er það sem ég hef áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á.

Er hv. þingmaður mér sammála um að það geti verið hagkvæmt fyrir bæði ríkið sjálft og sveitarfélög og samfélagið að ríkið komi beint að uppbyggingu atvinnulífs, kannski sérstaklega í svona litlu landi eins og Íslandi þar sem við stöndum frammi fyrir því að það komi upp dæmi þar sem ríkið á að koma beint að, ýmist með því að lána fjármagn eða veita einhvers konar ábyrgðir, eða (Forseti hringir.) jafnvel fjárfesta í verkefnum?