141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hér og ræða þetta við mig. Við getum til dæmis hringt til frænda okkar á Norðurlöndunum og spurt hvernig þeir fara að þessu. Það er engin sambærileg lánastofnun með ríkisábyrgð til í Svíþjóð né í Danmörku. Þær eru til í Noregi og Finnlandi en þær stofnanir eru með mun minni markaðshlutdeild en Íbúðalánasjóður er með hér á Íslandi. Ég held að ég hafi einhvern tíma heyrt umræðu um það að til séu hrjóstrug og afskekkt byggðarlög í Finnlandi, Noregi og jafnvel Svíþjóð, kannski síst Danmörku. Einhvern veginn hafa nú aðrir í heiminum komist í gegnum það að búa til húsnæðiskerfi þar sem staðan er ekki sú að skattgreiðendur beri alla áhættuna af því að sá markaður fúnkeri og það sé ríkisábyrgð á meiri hluta þeirra fasteignalána sem útgefin eru.

Ég tel að okkur beri öllum skylda til að horfa á þetta stóra fyrirbæri sem Íbúðalánasjóður er með opnum huga og þora að taka að minnsta kosti umræðuna um það hvort okkur finnist eðlilegt að ríkisábyrgð sé til staðar á svo stórum hluta fasteignalána á íslenskum markaði. Finnst okkur það eðlilegt til framtíðar? Finnst okkur það vera lausnin á vanda Íbúðalánasjóðs að hann fari einfaldlega inn í óverðtryggðu lánin og nái þannig að koma sér upp úr þeirri lægð sem hann er í núna? Hvað gerist svo? Eigum við ekki bara að tala um þetta með opnum huga og setjist öll saman yfir þetta verkefni? Við erum til, ég er til í það.