141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt mál að ræða þetta með opnum huga og raunar mikilvægt að gera það, en því miður hefur umræðan til þessa markast um of af hreinum rangfærslum eins og t.d. þegar sjálfstæðismenn staglast á þeirri tómu vitleysu að svokölluð 90% lán Íbúðalánasjóðs hafi á sínum tíma myndað fasteignabóluna sem hér varð. Þetta voru náttúrlega aldrei nein 90% lán því að á þeim var hámarksfjárhæð sem var yfirleitt mjög lág miðað við fasteignaverð. Það liggur fyrir ef menn skoða verðþróun á fasteignum að þessar lánveitingar Íbúðalánasjóðs höfðu ekki neitt með fasteignabóluna að gera.

Hv. þingmaður nefndi að í Danmörku og Svíþjóð væri ekki íbúðalánasjóður og engu að síður gæti fólk fengið þar lán til íbúðakaupa. En við verðum að taka tillit til þess að Ísland er ekki stórt land og fyrir vikið eru aðstæður um margt ólíkar (UBK: Borið saman við?) á Íslandi og í öðrum löndum. Í Svíþjóð til að mynda hafa menn tiltölulega sterka héraðsbanka eða sparisjóði sem sinna sínu nærumhverfi, bankar eru miklu fleiri en hér á landi og ég veit ekki til þess að menn eigi í verulegum vandræðum með að fá lán þar til íbúðakaupa á landsbyggðinni. En það er staðreynd hér á landi að bankarnir sinna ekki landsbyggðinni og það stendur jafnvel heilu byggðarlögunum fyrir þrifum vegna þess að fólk fær ekki lán í bönkunum til að kaupa þar fasteign. Þar af leiðandi verður Íbúðalánasjóður að vera til staðar á meðan sú er raunin. Ég sé ekki fram á neina breytingu á þessu í náinni framtíð, þvert á móti hafa bankarnir, hefur mér fundist, orðið erfiðari og enn síður verið (Forseti hringir.) tilbúnir til að lána til fasteignakaupa á landsbyggðinni.