141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir góða ræðu og yfirgripsmikla. Hann stiklaði á mjög stórum atriðum en þó ekki nándar nærri öllum þeim stóru atriðum sem tengjast þessu frumvarpi. Ég vil bera niður á sérstaklega einum stað sem tengist útvarpsfréttum eða sjónvarpsfréttum og varðar hjúkrunarfræðingana og hv. þingmaður kom inn á.

Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„254 hjúkrunarfræðingar hjá Landspítalanum sögðu upp störfum um mánaðamótin.“ — Þetta þekkjum við. — „Uppsagnirnar taka að óbreyttu gildi 1. mars næstkomandi.

Stjórn hjúkrunarráðs Landspítalans lýsti í yfirlýsingu í dag yfir miklum áhyggjum af uppsögnunum og það gerði Björn Zoëga, forstjóri spítalans einnig, alvarleg staða kæmi upp léti allur hópurinn verða af því að hætta. Óljóst sé hins vegar hvernig hægt sé að koma til móts við hjúkrunarfræðinga.“

Síðan segir Björn Zoëga, með leyfi forseta:

„En það er þó alveg ljóst að að óbreyttu ræður spítalinn ekki við neinar launahækkanir en við ætlum að reyna að finna einhverjar leiðir til að komast áleiðis en hvernig við gerum það er ekki ljóst enn þá.“

Það er ljóst að menn þurfa að fara yfir málin með tilliti til fjárlaga og þeirrar stöðu sem spítalinn er í til þess að takast á við þetta gríðarlega mikla verkefni.

Er þingmaðurinn mér sammála um að það sé ekki rétt m.a. í ljósi þess að við erum að ræða fjárlög, uppbyggingu á Landspítalalóðinni, uppbyggingu spítalanna, það er verið að fjárfesta í kaupum á nýjum tækjum, sem er vel, að við fáum engu að síður hæstv. velferðarráðherra hingað niður eftir þar sem við getum rætt um þá grafalvarlega stöðu sem upp er komin og ekki síst einmitt í ljósi þess að við erum að ræða fjárlagafrumvarpið hér í dag og í kvöld? Er hann ekki sammála mér um að það þurfi að ræða þessi mál sérstaklega við hæstv. velferðarráðherra?