141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hitti einmitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að staðan væri grafalvarleg í þessu máli, það alvarleg að til skemmri tíma muni það hugsanlega valda mikilli röskun á starfsemi Landspítalans – háskólasjúkrahúss en ekki síður hitt, að til lengri tíma erum við að missa fagmenntað fólk. Það var alveg ljóst að margir af þeim hjúkrunarfræðingum sem hafa sagt upp störfum hafa hug á að fara ýmist til Svíþjóðar eða Noregs. Við þessu bregðast stjórnvöld ekki.

Ég held hins vegar að það verði afar erfitt fyrir stjórnvöld að láta algjörlega forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss um að leysa úr þessum vanda. Að mínu mati er líklega ómögulegt að leysa úr þessum vanda án aðkomu stjórnvalda og þar með talið fjárlaganefndar Alþingis sem hlýtur á einn eða annan hátt að koma að þessu máli. Þess vegna er ég að tengja þetta við fjárlögin, það skiptir máli að við vitum horfurnar í fjárlögunum fyrir næsta ár. Mér er það til efs að forustumenn og forsvarsmenn háskólasjúkrahússins geti leyst úr þessari deilu án þess að bæði ríkisstjórn eða þing komi að því með einhverjum hætti, en þeir hafa reyndar verið kraftaverkamenn fram að þessu.

Hin spurningin sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um er sú þróun sem hefur verið hér að um leið og við í stjórnarandstöðunni erum byrjuð að ræða stór mál, hvort sem það er Icesave, stjórnarskráin, fiskveiðistjórnarmálið eða fjárlagafrumvarpið eins og núna, sem er ég hef sagt að sé eitt pólitískasta plagg sem ríkisstjórn leggur fram hverju sinni af því að með því leggur hún línurnar í stóru málunum, þá kemur upp kór stjórnarþingmanna og segir að við séum komin í málþóf. Er hv. þingmaður hræddur um að í ljósi þess verklags sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir í hinum ýmsu málum að hún muni beita sér fyrir takmörkun á málfrelsi (Forseti hringir.) okkar þingmanna? Eins og við vitum er þessi stóll og sá réttur að tala úr honum okkar helgasti réttur. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður hræddur um að stjórnarliðar muni beita sér fyrir því að hefta málfrelsi á þingi?