141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég hélt að tilgangurinn með umræðum í þingsal væri ekki hvað síst sá að með rökræðunni ættu sér stað endurbætur á þeim málum sem eru til umræðu hverju sinni. En við fáum ekki einu sinni viðbrögð við þeim ábendingum sem við höfum haft fram að færa, í mörgum tilvikum ábendingum um mjög alvarlega ágalla á frumvarpinu. Stjórnarliðar koma ekki einu sinni hér upp og segja okkur að áhyggjur okkar séu óþarfar og reyna að útskýra hvers vegna svo sé. Það er bara litið fram hjá umræðunni. Menn hamast hins vegar í fjölmiðlum og halda því fram að stjórnarandstaðan sé í málþófi til að reyna að þagga niður í okkur og fá okkur til að hætta að tala.

Þetta viðhorf finnst mér mjög mikið áhyggjuefni, að við séum með ríkisstjórn og stjórnarliða í landinu sem líti á umræðurnar í þinginu sem einhver óþægindi sem þurfi að sitja af sér (Gripið fram í: Óværu.) og því hraðar sem það gangi yfir því betra. Menn leyfa sér jafnvel að beita brögðum til að stöðva umræðurnar í stað þess að mæta á staðinn, taka þátt í umræðunni, láta menn að minnsta kosti vita að þeir hafi heyrt af þeim ábendingum sem stjórnarandstaðan hefur haft fram að færa. Nei, því er ekki að heilsa.

Hv. þingmaður nefndi hér að hæstv. fjármálaráðherra hefði skrifað eitthvað hjá sér þegar hv. þingmaður spurði spurninga á sínum tíma en að hæstv. ráðherra hefði ekki enn svarað. Ja, hæstv. ráðherra er ekki hér, það er enginn ráðherra hér og þar af leiðandi geta þeir ekki svarað. Þeir verða kannski með einhverjar skeytasendingar í fjölmiðlum en því miður er það ekki einu sinni svo gott að skeytasendingar í fjölmiðlum fjalli um efni málsins. Þær fjalla bara um það að hér sé í gangi málþóf og tilraunir til að þagga niður í umræðunni.