141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gæti sagt meira um álit mitt á umræddri framkvæmd en ég kem fyrir í tveggja mínútna andsvari (Gripið fram í.) og hefði gjarnan viljað fá tækifæri til þess í þinginu miklu fyrr að ræða þessi mál af nokkurri dýpt. Ég held að það hefði verið mjög skynsamlegt, eins og til stóð. Við ætluðum að vera búin að fara yfir þetta mál fyrir löngu vegna þess að það sem við horfum upp á núna er að ríkisstjórnin er að leggja fram fjárlög þar sem hún veit ekkert hvort kostnaður, og þá hversu mikill, muni falla til vegna þessa risastóra verkefnis á árinu 2013. Það er ekki búið að fara í nauðsynlega umræðu í aðdraganda þess að ríkisstjórnin lagði fram fjárlögin. 2. umr. um fjárlagafrumvarpið hófst reyndar viku á eftir áætlun vegna þess að það gekk tiltölulega hægt að finna út úr ýmsum atriðum, en þetta var greinilega ekki eitt af þeim, bygging Landspítala, vegna þess að það mál er enn í algjörri óvissu.

Um það mál held ég að óhætt sé að segja að að minnsta kosti á meðan menn geta ekki haldið starfsfólki spítalans, geta ekki keypt nauðsynleg tæki, sé tómt mál að tala um að setja tugi milljarða í að byggja nýjan Landspítala. Menn þurfa að forgangsraða þannig að þeir geti að minnsta kosti haldið starfsfólkinu sem á að manna hinn nýja spítala áður en ráðist verður í byggingarframkvæmdir.

Svo hefði ég reyndar gjarnan viljað segja eitt og annað um skipulag nýja Landspítala – háskólasjúkrahúss af því að hv. þingmaður spurði mig almennt út í álit mitt á þeirri framkvæmd. Það er ekki tími til þess núna en vonandi verður fljótlega umræða um þetta stóra mál í þinginu.