141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir ummæli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um grunnþjónustuna. Það er einmitt það sem við höfum verið að nefna hér og ræða út í gegn í þessari umræðu, þ.e. forgangsröðunin sem birtist í fjárlagafrumvarpinu. Hún er að mínu mati mjög röng. Eins og hér hefur ítrekað verið rakið er ekki verið að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar, heilbrigðismála, menntamála, löggæslunnar, heldur er í gæluverkefni hingað og þangað. Þegar líða tekur að kosningum er svo búin til einhver fjárfestingaráætlun með verkefnum sem ég hef áður gert að umtalsefni. Eflaust eru það allt voða fín verkefni en í mínum augum er það hneyksli að eyða 280 millj. kr. í grænkun íslenskra fyrirtækja þegar við getum ekki mannað lögregluliðið okkar þannig að öryggi borgaranna sé tryggt.

Mig langar líka að ræða um forgangsröðun í öðru samhengi. Á vef Ríkisútvarpsins fyrr í dag var frétt um hina margumræddu IPA-styrki. Hér er talað um að ESB veiti 1,8 milljarða í IPA-styrki. Ég hef engar forsendur til að rengja þá tölu, Ríkisútvarpið hefur væntanlega gögn undir höndum um það, en það liggur alla vega fyrir að í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að mótframlag Íslands væri 384 millj. kr. Með þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram við 2. umr. fer mótframlag Íslands upp í rúmar 806 milljónir sem er aukning upp á 422 millj. kr.

Í breytingartillögu við fjárlagalið 09-262 Tollstjórinn er einmitt farið yfir 115,2 millj. kr. aukningu, tímabundna heimild til að ráðstafa styrk frá Evrópusambandinu vegna endurnýjunar tollkerfa. Ég hef oft og ítrekað gert þessi tollkerfi að umtalsefni hér. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst með ólíkindum hvernig greinargerðin með þessari tillögu er. Hér segir, með leyfi forseta:

„Á móti fjárheimild samkvæmt þessari tillögu er gert ráð fyrir að komi óafturkræfur styrkur til íslenska ríkisins frá ESB sem færist á tekjuhlið og hefur verkefnið að því leyti til ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.“

Þá hefur það ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs — þessar 115,2 milljónir hafa þá ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Hér segir að mótframlag Íslands til verkefnisins samsvari 2 millj. evra, sem eru eitthvað í kringum 320 milljónir íslenskra króna, sem verður þá ekki varið í önnur verkefni. Tekið var upp á því að forgangsraða í tollkerfi, hversu nauðsynlegt sem það nú getur verið, upp á 320 milljónir í stað þess að forgangsraða í þágu löggæslu eða heilbrigðismála.

Þetta er nákvæmlega eins og að góðviljaður einstaklingur veiti mér 100 þús. kr. styrk til að kaupa skó. Segjum það. Ég fengi 100 þús. kr. til að kaupa mér skó gegn því að ég legði sjálf til 50 þús. kr. til þeirra skókaupa. Ég hafði svo sem ekkert hugsað mér að kaupa skó, en fyrst ég fæ þetta svakalega góða tilboð þá tek ég því náttúrlega. En ætlar einhver — hv. þm. Pétur H. Blöndal er nú mesti reiknimeistari hér — að halda því fram að 50 þús. kr. útgjöld hjá mér vegna þessara skókaupa, sem ég fæ 100 þús. kr. styrk fyrir, hafi ekki áhrif á afkomu heimilisins? Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á afkomu heimilisins vegna þess að ég eyði ekki þessum 50 þús. kr. í mat handa börnunum mínum, íþróttir eða fatnað eða nokkuð annað sem ég þarf að borga um hver mánaðamót. Þar sem við fáum 6 milljónir evra, 900 milljónir, frá Evrópusambandinu er sagt að þessi 320 millj. kr. útgjöld íslenska ríkisins hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Mér finnst þetta algjör fjarstæða.

Ég krefst þess að þessi IPA-mál, alveg eins og útgjöldin vegna aðildarumsóknarinnar í heild, verði tekin saman. Ég sé að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson situr hér í salnum, hann hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem ég er meðflutningsmaður að, þar sem lagt er til að Ríkisendurskoðun fari ofan í það hver fjárútlátin og fjárausturinn er orðinn í þessa umsókn. Er einhver með heildaryfirsýn yfir það hvað þetta kostar? Er ferð okkar hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og fleiri þingmanna til Strassborg í síðustu viku bókuð sem ferðakostnaður Alþingis, eða er hún bókuð á einhverjum ESB-lið sem kostnaður við aðildarviðræðurnar? Þetta var ferð gagngert vegna aðildarviðræðnanna, þingmannanefnd frá Alþingi að ræða við þingmenn frá Evrópuþinginu.

Með nákvæmlega sama hætti vil ég fara fram á það, og krefst þess, að gerð verði almennileg grein fyrir því hvert mótframlag Íslands er vegna þessara IPA-styrkja, vegna þess að þeir eru hist og her út um allt ríkisbókhaldið, í stofnunum á vegum umhverfisráðuneytisins, í alls konar verkefnum sem hafa í sjálfu sér ekki neitt að gera með aðildarviðræðurnar eða þá aðlögun sem við erum í vegna þeirra. Þetta er hér út um allt og enginn, ég leyfi mér að fullyrða það, er með yfirsýn yfir þetta. Og að segja hér að þetta hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs! (PHB: Er þetta ekki …?) Ég ætla að nefna tvennt sem hægt hefði verið að verja þessum 320 milljónum í — reyndar held ég að nóg hefði verið að verja 20 milljónum í það, en ekki fást peningar í þessi litlu verkefni sem ég er að tala um.

Ég sótti um vegabréf um daginn, var heppin, vegna þess að það á að fara að hækka þau. Ég er búin að fá nýtt vegabréf. Fór á sýslumannsskrifstofuna í Keflavík. Myndatakan fyrir vegabréfið tók í kringum klukkutíma. Vegna hvers? (Gripið fram í: Var þetta góð mynd?) — Þetta var svakalega góð mynd. — Vegna þess að tölvan fraus alltaf. Ég spurði: Er þetta eitthvað gömul tölva? Já, við höfum ekki fengið að endurnýja hana í fleiri ár. Ég hugsa að hægt væri að taka eitthvað af þeim 320 milljónum, sem hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs að mati fjármálaráðuneytisins, í þetta.

Hitt dæmið og öllu alvarlegra, vegna þess að mig munaði í sjálfu sér ekkert um þennan klukkutíma, var þegar ég heimsótti slökkviliðið í mínum heimabæ. Þar er í fyrsta lagi barátta um það að fá 5–10 milljónir til að verðlagsbæta kjarasamninga sem eiga að taka gildi á næsta ári. Það fæst ekki. Hægt væri að nota hluta af þessum aurum í það. Svo er líka kominn tími á að endurnýja allan búnað, bíla og reykköfunargalla sem duga bara í ákveðinn árafjölda og þarf að endurnýja. Ekki hefur verið til peningur til að setja í endurnýjun á slíkum búnaði. Það getur verið lífshættulegt. Það er hættulegt ef reykkafarar eru ekki með þann búnað sem þeir þurfa. Við vitum það öll.

Þetta er röng forgangsröðun, herra forseti, og það þarf að fara ofan í kjölinn (Forseti hringir.) á því hversu miklum fjármunum er endalaust verið að veita í þessa blessuðu aðildarumsókn.