141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var stödd á afar merkilegum fundi fyrr í dag sem fjallaði einmitt um samstöðu um þjóðarhagsmuni. Það kom fram í máli fólks sem er með ólíkan bakgrunn, ólíkar skoðanir á Evrópusambandinu og er ekkert endilega sammála því að ganga eigi í Evrópusambandið að það var sammála um að klára ætti aðildarviðræðurnar. Það má nefna Stefaníu Magnúsdóttur sem talaði á þeim fundi og er verkalýðsforingi til margra ára. Það er hægt að nefna Guðmund Kristjánsson í Brimi sem sagði það að það væri alveg ljóst af hans hálfu að hann væri ekkert endilega hrifinn af því fyrirbæri sem kallast Evrópusambandið en taldi líka mikilvægt að aðildarviðræðurnar yrðu kláraðar af því að við verðum að halda áfram. Það er það sama með Hugrúnu Dögg, talandi um skó sem ég veit að hv. þingmanni finnst gaman að klæðast en Hugrún Dögg rekur Kronkron og er hönnuður, hún lagði mikla áherslu á þetta. Það skiptir máli í heildarsamhenginu.

Mér finnst ekki hægt að koma hingað upp og segja að við eigum að stoppa þetta, m.a. út af kostnaðinum. Já, það er ákveðinn kostnaður en ég tel að það séu meiri þjóðhagslegir hagsmunir fyrir okkur fólgnir í því að klára aðildarviðræðurnar. Það er mín einlæga trú.

Ég segi það ófeimin, og vil taka undir með hv. þingmanni, að það er gríðarlega mikilvægt að við fáum, og ég undirstrika ósk okkar hv. þm. Birgis Ármannssonar, umfangsmikla umræðu um Evrópusambandsaðildarumsóknina. Að það verði ekki bara skammtaðir tveir menn á hvern þingflokk því eins og við vitum eru ólíkar skoðanir, m.a. innan þingflokks sjálfstæðismanna, varðandi þetta aðildarumsóknarferli og ég áskil mér rétt til að vera að minnsta kosti hluti af þeim sem geta tekið til máls í slíkri umræðu.