141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þar sem ég lauk máli mínu áðan hafði ég aðeins fjallað um þá sérkennilegu breytingartillögu sem er hér í breytingartillögugrúppu frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar þar sem er kveðið sérstaklega á um hækkun til Fiskistofu upp á 40 millj. kr. Hver er ástæðan fyrir því að sú breytingartillaga er komin fram? Það er þannig að við samþykktum lög um veiðigjald og það veiðigjald er að 90% innheimt frá útgerðum á landsbyggðinni til ráðstöfunar í gegnum ríkissjóð. Við þekkjum að þegar komið er inn í ríkissjóð fer langstærsti hluti þess fjármagns til ráðstöfunar á höfuðborgarsvæðinu svo að þar er um að ræða mjög skýra fjármagnstilflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Síðan til að kóróna það allt saman er enn fremur lagt til í breytingartillögum frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar að auka viðbúnað Fiskistofu þannig að ráða þurfi eins og þar segir „a.m.k. fjóra sérfræðinga“ — a.m.k. fjóra sérfræðinga. Með öðrum orðum er verið að gefa undir fótinn með það að þær 40 milljónir séu nú einhvers konar byrjunarupphæð og mögulega þurfi að hækka hana þegar fram í sækir og þarf að fara að ráða fleiri sérfræðinga til að vinna úr löggjöfinni sem Alþingi setti hérna í vor og hefur auðvitað haft neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir sjávarútveginn, en hefur síðan þessi áhrif til viðbótar.

Það sem vakti sérstaka athygli mína er annars vegar að verið er að leggja til þær 40 millj. kr. til að standa straum af kostnaði vegna veiðigjaldsins á grundvelli frumvarps sem hæstv. atvinnuvegaráðherra mælti fyrir. Síðan er líka sagt að í meðferð Alþingis hafi verið gerð breyting á löggjöfinni um veiðigjöldin þannig að þau verða flóknari og það muni síðan kosta viðbótarvinnu og þar með kostnað fyrir Fiskistofu. Það var breytingartillaga sem var gerð við 2. eða 3. umr. málsins af meiri hluta atvinnuveganefndar. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir því í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar að með nokkrum hætti sé séð fyrir þeim kostnaði sem fyrirsjáanlega mun falla á Fiskistofu.

Þannig að mér finnst það ákaflega lítilmótlegt viðhorf sem koma fram í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, að taka ekki tillit til kostnaðar sem Alþingi er í raun og veru að framkalla með sinni breytingartillögu á veiðigjaldalöggjöfinni heldur ætlast til að það mál verði leyst einhvern tímann seinna. Það er enn eitt dæmið um það sem ég hef aðeins gert að umtalsefni, hvernig menn skauta í raun og veru fram hjá veikleikunum í fjárlagafrumvarpinu, láta eins og ekkert sé, setja kíkinn stöðugt fyrir blinda augað eins og ég hef orðað það þegar kemur að því að skoða svona mál. Í stað þess að horfast í augu við afleiðinguna af þeim breytingum sem voru gerðar á veiðigjöldunum að frumkvæði Alþingis sjálfs, að sá kostnaður sé einfaldlega ekki borinn uppi heldur vísað inn í framtíðina. Það er auðvitað hraklegt dæmi um hvernig menn eru í raun og veru að ýta vandanum á undan sér í fjárlagagerðinni, í stóru sem smáu.

Það er ekki allt. Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er líka annar mjög athyglisverður útgjaldaliður. Það er veiðigjaldanefnd. Veiðigjaldanefndin er mikil og merkileg nefnd. Ég hef stundum sagt að í seinni tíma stjórnsýslu er hún mögulega valdamesta og þýðingarmesta nefnd sem nú er starfandi. Sú nefnd hefur lögboðið hlutverk og hún hefur frumkvæðisskyldu. Henni er til dæmis ætlað að rýna forsendur veiðigjaldanna í stóru sem smáu, fara ofan í þorskígildisstuðla og ofan í allar forsendur sem liggja til grundvallar veiðigjaldinu eins og það er hugsað í löggjöfinni. Það sem meira er, henni er ætlað að hafa það frumkvæði því ef hún telur að í óefni stefni fyrir atvinnugreinina af völdum veiðigjaldsins á hún að tilkynna það ráðherranum og ráðherrann á síðan að flytja frumvarp til breytinga til að bregðast við. Til dæmis er það þannig að ef veiðigjaldið gerir það að verkum, eins og blasir við varðandi gulllaxinn og rækjuna svo dæmi sé tekið, að sá veiðiskapur verði óarðbær, ekki hægt að stunda hann, er hættan sú að menn hætti að nýta viðkomandi fiskstofna og þá á veiðigjaldanefndin að hugsa upp ráð og leggja fram tillögu til hæstv. ráðherra um það til dæmis að undanskilja þær tegundir gjaldtökunni. Ráðherrann leggur það svo fyrir Alþingi sem síðan tekur afstöðu til málsins.

Sú nefnd á núna að fá 30 millj. kr. Ég ætla að fullyrða að það er örugglega ekki ofáætlað. 30 millj. kr. fyrir nefnd sem á að sinna svona mikilvægu hlutverki getur alls ekki talist ofáætlun af neinu tagi. Nefndin mun örugglega þurfa að kalla fyrir sig mikið af sérfræðingum. Hún þarf að leggja í alls konar kostnað sjálf við þá vinnu þannig að ég er í sjálfu sér ekki að gagnrýna að sú tala sé þarna til staðar. Ég er að vekja athygli á því að við erum komin með, á tveimur stöðum í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, kostnaðarliði, herkostnað, við innleiðingu veiðigjaldsins upp á 70 millj. kr. Annars vegar vegna þess að það kostar heilmikið umstang í Fiskistofu upp á 40 milljónir að lágmarki, eins og kemur fram þarna þar sem verið er gefa til kynna að talan þurfi að hækka í framtíðinni, og síðan 30 millj. kr til viðbótar vegna veiðigjaldanefndarinnar.

Það er auðvitað svona til marks um samhengið sem við okkur blasir. Annars vegar er það samhengi að verið er að leggja þessi gjöld á sjávarútveginn sem að 90% er starfræktur á landsbyggðinni, færa þá fjármuni inn í ríkissjóð og ríkissjóður ráðstafar þeim að langstærstum hluta á höfuðborgarsvæðinu. Síðan er um leið ákveðið, svona bara til að strá pínulitlu salti í sárið á landsbyggðinni, að búa til heilmikla stjórnsýslu upp á 70 millj. kr. til að standa straum af því að reka í raun og veru hið nýja veiðigjaldakerfi. 70 millj. gefa sömuleiðis til kynna að það sé nú örugglega ekki það síðasta sem við eigum eftir að sjá.

Nú skulum við bera 70 millj. kr. saman við ýmsar litlar stofnanir hingað og þangað. Við sjáum hér alls konar tölur um heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni sem hafa verið skornar harkalega niður. Sagt er að það sé vegna þess að gera þurfi ráðstafanir í ríkisfjármálum af því að ríkissjóður hafi ekki efni á því að reka þær litlu stofnanir. Það þurfi að hagræða, hér varð hrun. Hæstv. velferðarráðherra er stöðugt að segja okkur frá því að hann standi nú í ströngu vegna þess að það hafi orðið tekjubrestur hjá ríkissjóði. Við sjáum það ekki í þessu. Þarna sjá menn allt í einu matarholur upp á 70 millj. kr., ekki til að halda úti lífsnauðsynlegri starfsemi á landsbyggðinni, ekki til að fjármagna til dæmis heilsugæslustöðina í Ólafsvík sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi hérna áðan.

Hv. þingmaður vakti athygli á því, og er ástæða til að rifja það aðeins upp, að nú er svo komið að búið er að taka um ákvörðun um að loka heilsugæslunni í Ólafsvík fyrir 1.800 manna byggðarlag, Snæfellsbæ, aðra hverja helgi. Þar er um að ræða einn lækni á bakvakt, það er nú allur sparnaðurinn sem af því hlýst. Fólkið þarf síðan að sækja þjónustu um lengri veg við misjafnar aðstæður að vetri ekki síður en að sumri. Maður sér í hendi sér að öll rök væru fyrir því að þarna væri starfrækt heilsugæsla með lækni á bakvöktum allar helgar ekki síður en á virkum dögum. En hæstv. ríkisstjórn telur rétta forgangsröðun í því sambandi að efla fremur stjórnsýsluna í veiðigjaldabatteríinu á höfuðborgarsvæðinu en að halda úti heilsugæslunni í Ólafsvík sem býr við þá skertu þjónustu.

Fyrir nú utan það, svo ég haldi áfram að ræða um málin í Ólafsvík af því það er náttúrlega himinhrópandi hvernig það er meðhöndlað, þá er það er auðvitað einskiptis niðurskurður. Það sjá allir. Auðvitað gera sér allir grein fyrir því að í þeim niðurskurði eru menn komnir langt, ekki bara inn að beini, heldur inn í beinið. Þarna er verið að spara og allir gera sér grein fyrir því að auðvitað hlýtur það að verða tímabundinn sparnaður. Þetta er enn eitt verkefnið sem mun bíða nýrrar ríkisstjórnar að takast á við. Það er niðurskurður af því tagi, vanhugsaður og handahófskenndur niðurskurður í lífsnauðsynlegri starfsemi sem menn telja ekki eftir sér að fara í á sama tíma og þeir telja heldur ekki eftir sér að auka í báknið á höfuðborgarsvæðinu í alls konar stjórnsýslu sem er svo fjármögnuð með skatttekjum almennings á landsbyggðinni.