141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja mál mitt á því að minnast á eina breytingartillögu sem fram kemur við þessa umræðu og tengist málefnum Íslenskrar ættleiðingar. Ég hef spurt hæstv. innanríkisráðherra hvað því líði að gera þjónustusamning milli ráðuneytisins og félagsins. Íslensk ættleiðing annast samkvæmt lögum skyldur ættleiðingarfélags í þeim tilfellum þegar ættleiðing fer fram. Forsvarsmenn þess félags hafa mikinn metnað og vilja sinna þessu verkefni af mikilli trúfestu en til þess að styrkja rekstrargrundvöll félagsins er nauðsynlegt að tryggja fjárveitingar til að starfsemin geti farið fram og uppfyllt skilyrði laganna.

Ég sé að þessar spurningar og fyrirspurnir og það allt saman hefur skilað því að málinu hefur eitthvað miðað áfram. Hér er gert ráð fyrir 25 millj. kr. framlagi sem bætist þá við þær 9,1 millj. kr. sem var í upphaflega frumvarpinu. Sú breyting er rökstudd á þann hátt að hér sé verið að leggja þetta framlag til til þess að unnt verði að tryggja grunnþjónustu sem félaginu er ætlað að sinna. Þá liggur fyrir að heildarframlag til félagsins er þar með 34,1 millj. kr. fyrir næsta ár. Engu að síður er ljóst að enn er ekki búið að undirrita þjónustusamning milli félagsins og ráðuneytisins og ég geri ráð fyrir að miðað við áætlanir félagsins Íslenskrar ættleiðingar sé þessi fjárveiting ekki nægjanleg til að standa undir þeirri grunnþjónustu sem félaginu er ætlað að veita.

Til að hjálpa við umræðuna gæti hæstv. innanríkisráðherra svarað þeirri spurningu hvernig því miðar að ná undirritun á þjónustusamningi milli ráðuneytisins og Íslenskrar ættleiðingar. Ég tel að enn beri talsvert í milli þess og þess sem félagið gerir ráð fyrir að þurfa í sinn rekstur á næstu árum. Menn þar á bæ bera þær vonir í brjósti að horft verði til þeirra röksemda sem félagið færir fram með skilningi af hálfu ráðuneytisins og væri gott ef hæstv. ráðherra gæti í umræðunni í dag, kvöld eða nótt upplýst okkur um hvernig þessu miðar áfram.

Er ætlunin að bæta í á næsta ári, þ.e. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014, eða er eitthvert annað plan í gangi? Er gert ráð fyrir því að skrifað verði undir þjónustusamning á næstu dögum?

Þegar svar við þessari spurningu kemur er kannski rétt að taka nánari umræðu um málefni Íslenskrar ættleiðingar.

Frú forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að til þess að tryggja undirstöðu samfélags okkar þyrfti að vera hér öflug löggæsla. Við þekkjum öll að það hefur þurft að skera niður í ríkisrekstri á undanförnum árum og auðvitað sýnum við því ákveðinn skilning. Hins vegar má ekki ganga það langt að löggæslan nái ekki að sinna þjónustuhlutverki sínu og ég tel að of langt hafi verið gengið í niðurskurði á þeim málaflokki. Til að lögreglan geti haldið í horfinu miðað við það sem nú er þarf að bæta í þann málaflokk um 300 millj. kr.

Heildarniðurskurður til löggæslumálefna á undanförnum árum er um 2,8 milljarðar kr. Þessi fjárhæð er uppreiknuð, kemur fram í skýrslu sem innanríkisráðuneytið hefur gert í samráði við ríkislögreglustjóra og það hefur verið staðfest í þingræðu af hæstv. innanríkisráðherra. Til að halda í horfinu þarf 300 milljónir. Það þarf 550 milljónir til þess að ástandið verði þolanlegt en ef ekkert verður að gert er ljóst að það verður um að ræða frekari uppsagnir í löggæslunni. Af því hef ég töluverðar áhyggjur.

300 milljónir eru 300 milljónir og það eru talsverðir peningar, en ég er með hugmynd um hvernig hægt er að koma til móts við þetta. Hér er liður sem heitir 03-190 Ýmis verkefni, 1.32 Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Hér er lagt til að 40 millj. kr. bætist við þær fjárheimildir sem þegar hafa komið fram í frumvarpinu sem upphaflega var lagt fram um þetta mál. Þar var gert ráð fyrir 90 millj. kr. fjárveitingu til viðræðnanna en með þessari viðbót er gert ráð fyrir 130 millj. kr. Þá erum við þegar komin með nokkurn veginn helminginn af þeirri fjárhæð sem þarf til löggæslumála og þar tel ég ágætlega af stað farið. Við getum byrjað á þessu. Síðan eru fleiri atriði sem hægt er að skera niður á móti.

Herra forseti. Mér er hins vegar til efs að þessi liður sem heitir Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sé tæmandi til að lýsa þeim kostnaði sem þetta aðlögunarferli allt saman hefur í för með sér. Þess vegna geri ég ráð fyrir því að ef umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verður einfaldlega dregin til baka náum við enn frekari hagræðingu í ríkisrekstrinum. Ef við náum að tína saman þennan kostnað ætti það að slaga hátt upp í, ef ekki dekka alveg, kostnaðinn af því að bæta því inn í löggæslumálin sem að minnsta kosti tryggði það að menn sem starfa í löggæslunni gætu haldið í horfinu.

Mig langar að ræða líka aðeins um lið 09-262, um tollstjórann. Á bls. 55 í nefndaráliti meiri hlutans þar sem tilteknar eru þær breytingartillögur sem gerðar eru hér við 2. umr. er fjallað um 115,2 millj. kr. tímabundna fjárheimild til að ráðstafa styrk frá Evrópusambandinu vegna endurnýjunar tollkerfa. Hér er um að ræða svokallaðan IPA-styrk og ég get ekki séð betur en að þessi styrkur sé notaður til þess að endurnýja og ráðast í úrbætur á tollkerfum ríkisins. Það er áætlað að heildarstuðningur sambandsins við verkefnið verði 6 milljónir evra, þar af 4 milljónir evra í beinum fjárframlögum sem svarar til 640 millj. kr. miðað við að gengi evru sé tæpar 160 kr. Til viðbótar þessu er gert ráð fyrir að til komi annars konar stuðningur frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í formi ráðgjafar og tækniaðstoðar. Það er áætlað að mótframlag Íslands til verkefnisins svari til 2 milljóna evra.

Er hægt að lesa eitthvað annað út úr þessu verkefni sem er í gangi en að hér sé verið að laga kerfi tollsins að kröfum Evrópusambandsins? Ég held að varla sé hægt að sjá skýrara dæmi en þetta enda er um að ræða aðlögun okkar að Evrópusambandinu, líkt og allra annarra þjóða sem sótt hafa og sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það eru kannski fáir orðnir eftir í þeim hópi sem andmæla því að við séum í aðlögun en hér er til dæmis fyrir áhugasama skýrt dæmi sem sýnir okkur svart á hvítu að um aðlögun er að ræða. Enda er það alkunna að það erum við, þ.e. Samfylkingin ásamt nokkrum meðreiðarsveinum sínum, sem erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu en ekki Evrópusambandið að sækja um aðild að Íslandi.