141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar sem greindi frá því meðal annars að í hans heimabæ, Snæfellsbæ, þyrfti að loka heilsugæslunni aðra hverja helgi vegna þess að þar fengist ekki fjárveiting fyrir lækni. Ég dreg ekki í efa orð hv. þingmanns. Á sama tíma er í breytingartillögum frá meiri hlutanum gert ráð fyrir 5,9 millj. kr. fjárveitingu til að unnt sé að ráða spendýrafræðing til Náttúrufræðistofnunar Íslands á meðan ekki er hægt að manna læknisstöðu við heilsugæsluna í Snæfellsbæ. Með fullri virðingu, virðulegur forseti, hvers konar forgangsröðun er á ferðinni? Það á að setja inn varanlega fjárveitingu upp á 5,9 milljónir til að ráða spendýrafræðing við Náttúrufræðistofnun Íslands en það er ekki hægt að ráða lækni við heilsugæslustofnunina í Snæfellsbæ.

Virðulegur forseti. Þetta eru áherslur norrænu velferðarstjórnarinnar, hvorki meira né minna.

Svo langar mig að ítreka að hér er verið að búa til fjöldann allan af störfum sem eru komin til að vera. Ég ítreka eins og ég gerði í fyrri ræðu minni í dag að það er verið að setja á laggirnar sérstaka veiðigjaldsnefnd sem kostar 30 millj. kr. á ári og til að reikna út veiðileyfagjöldin kallar Fiskistofa á ráðningu starfsmanna upp á 40 milljónir á ári. Það eru 70 milljónir sem eru veittar reglulega úr ríkissjóði vegna þess að þessari ríkisstjórn datt í hug þetta veiðileyfagjald.

Virðulegur forseti. Er nema von að mörgum sé brugðið við það sem hér sést? Fyrir ríkissjóð sem er skuldum vafinn er lagt út í hverja fjárveitinguna á fætur annarri sem til er orðin undir heitinu fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar 2013–2015 og öll upphæðin byggist á því að umframhagnaður verði í sjávarútvegi og möguleiki að selja eignir og hirða arðgreiðslu af fyrirtækjum ríkisins í stað þess að greiða niður skuldir.

Virðulegur forseti. Á bls. 62 í skýringum um einstakar breytingar með fjárlagafrumvarpinu er komin til að vera 34 millj. kr. hækkun til umhverfisráðuneytisins vegna þess að ekki hafði verið gert ráð fyrir því í breytingum í Stjórnarráðinu að ákveðin verkefni færu til umhverfisráðuneytisins. Væntanlega hafa þessi verkefni verið hjá einhverju öðru ráðuneyti áður nema að inn sé verið að læða nýjum verkefnum án þess að það hafi frekar verið rætt, upp á 34 millj. kr.

Síðan er á bls. 37 í skýringum, eiginlega með endemum, ákveðið í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar að færa af stofnkostnaði hjá fjarskiptasjóði 236,6 millj. kr. í rekstur á öðrum lið hjá fjarskiptasjóði sem yfirtekur samning við fjarskiptafyrirtækið Farice. Hér er stofnkostnaði breytt í rekstur sisvona á milli umræðna og það hlýtur að teljast undarleg ráðstöfun en það er ljóst að út af því sem fjarskiptasjóður hefur verið bundinn til að gera vegna þjónustusamnings ríkisins við Farice þarf að millifæra fjármuni með þessum hætti.

Virðulegur forseti. Það gerðist líka núna á haustdögum, 28. september 2012, að undirritaður var nýr búvörusamningur sem á að gilda allt til ársins 2017. Búvörusamningur sem þó rennur ekki út fyrr en 2014 var endurnýjaður en núverandi ríkisstjórn þótti ástæða til að endurnýja þann búvörusamning. Í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir er gert ráð fyrir 48,3 milljónum til Bændasamtaka Íslands fyrir þróunarverkefni og jarðrækt og 25,8 millj. kr. í Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Kann að vera að einhverjum þyki ekkert við þetta að athuga, en er ekki tímabært að teknir séu til heildarendurskoðunar allir þessir þættir svo menn sjái í hendi sér til einhverrar framtíðar með hvaða hætti við ætlum að standa að þessum verkefnum?

Virðulegur forseti. Í fjárfestingaráætluninni er líka lagt til í 6. gr. heimildinni að fjármálaráðherra verði heimilt að leggja 500 millj. kr. í grænan fjárfestingarsjóð. Það stendur hvergi hver á að hýsa þennan sjóð. Það er hvorki hægt að sjá í raun, ekki enn, hverjir eiga að geta sótt í hann né til hvers konar verkefna. Mest um vert er að hér er verið að um að ræða stofnframlag og þá veltir maður fyrir sér hvernig sjóðurinn eigi síðan að fjármagna sig til framtíðar. Á hann að fjármagna sig með lánum og vöxtum af lánum? Á hann að lána og fjármagna sig með þeim hætti eða er þetta enn einn sjóðurinn með hugsanlegri ríkisábyrgð sem settur er á laggirnar og við horfum til eins og meðal annars er ástatt hjá Íbúðalánasjóði?

Virðulegur forseti. Hér eru líka fjármunir vítt og breitt í þessum breytingartillögum, 57 milljónir tímabundið í Vatnajökulsþjóðgarð til að standa undir sérstöku átaki til að byggja upp innviði viðkvæmra en vinsælla ferðamannastaða. Á sama stað hjá Umhverfisstofnun eru 105 millj. kr. til að standa undir sérstöku átaki í því að byggja upp innviði viðkvæmra en vinsælla ferðamannastaða. Gott og vel.

Síðan er á bls. 60 Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Þar eru 500 milljónir settar inn til þess að gera nákvæmlega hið sama.

Virðulegur forseti. Öll þessi verkefni eru án efa þörf en fyrir ríkissjóð sem er skuldum vafinn er þetta vart boðlegt. Menn verða að forgangsraða með öðrum hætti en gert er í þessu frumvarpi. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013, sem fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra og núverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, mærir svo mjög og segir eitt besta fjárlagafrumvarp, í það minnsta síðustu fimm ára, og telur að flestir eigi að fagna hækkar skuldir ríkissjóðs. Með þessu fjárlagafrumvarpi hækka skattar og vörugjöld sem þýðir að lán heimilanna í landinu hækka. Hingað til höfum við ekki getað leyst úr vanda heimilanna, a.m.k. ekki verðtryggðum lánum. Dómar hafa séð um að lagfæra og breyta öðrum lánum, en með þessu frumvarpi hækka lán heimilanna. Það er svo einfalt og það að fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, skuli standa hér og mæra frumvarp og næstum því segja stjórnarandstöðunni að þegja því að hún eigi að taka þessu með þökkum er með ólíkindum.