141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í síðustu ræðu ræddi ég um stórar áhættur, síðan um risagöt á þessu besta fjárlagafrumvarpi hæstv. ríkisstjórnar, sem ekki hafa komið fram. Þá nefndi ég LSR, 57 milljarða, Íbúðalánasjóð 13–40 milljarða, ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið, allt risaupphæðir.

Í síðustu ræðu fór ég í gegnum tillögur meiri hlutans í fjárlaganefnd en náði ekki að klára það allt saman og ætla því að fara í gegnum það núna.

Í fyrsta lagi er á síðu 55 rætt um lífeyrisskuldbindingareftirlaun, 1.000 millj. kr. Ekkert voðalega stór tala miðað við hin götin.

Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Lagt er til að framlag til greiðslu lífeyrisskuldbindinga verði hækkað um 1 milljarð kr. til að mæta útgjaldaþróun síðastliðins árs.“

Útgjaldaþróun síðastliðins árs? Ég hélt að við værum að ræða fjárlög fyrir árið 2013 en þarna koma sem sagt fram 1.000 millj. kr. til þess að mæta útgjaldaþróun á árinu 2011. Gert var ráð fyrir því í fjáraukalögum. Hér er gert ráð fyrir því að þær hækkanir sem rekja má til kjarasamninga opinberra starfsmanna og eftirlaunarétt starfsmanna í B-deild LSR og LH, sem hafið hafa töku lífeyris gjaldfærist á rekstrarreikning ríkissjóðs. Þetta eru sem sagt hækkanir á launum opinberra starfsmanna, sem koma strax fram í B-deild vegna þess að þar eru lífeyrisréttindi tengd launum, og ríkissjóður borgar hækkunina en ekki skuldbindinguna, hún er ógreidd. Ég vildi vekja athygli á því vegna þess að það tengist því sem ég ræði hér, þ.e. 400 milljarða gati á B-deild LSR, sem ríkissjóður skuldar. Svo skulda aðrir aðilar, sveitarfélög, stjórnmálaflokkar, Bændasamtökin o.s.frv. eitthvað um 130 milljarða. Þeir eru nefnilega tryggðir hjá B-deild LSR. Síðan er vantar Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga rúmlega 50 milljarða. En ég er ekki að tala um það, þetta er 1 milljarður til að mæta hækkun á lífeyri vegna hækkunar launa.

Ég náði ekki að klára það sem ég byrjaði að segja í síðustu viku, en það varðar hæstv. ráðherra Vinstri grænna. Vinstri grænir unnu síðustu kosningar með ýmsum slagorðum. Þeir voru á móti því að ganga í Evrópusambandið, þess vegna unnu þeir kosningarnar, og svo voru þeir á móti því að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þess vegna unnu þeir kosningarnar. Svo samþykktu þeir með einhverjum undarlegum hætti þann 16. júní 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég minnist alltaf ræðu hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur við það tækifæri, sem ég legg nú til að landsmenn lesi sér til hugarhægðar á hverju kvöldi, hún er svo furðuleg. Hæstv. ráðherra sagði í tveggja mínútna ræðu í atkvæðaskýringu að hún væri á móti Evrópusambandinu, það væri hernaðarbandalag og ég veit ekki hvað og hvað. Og svo sagði hún já við því að sækja um aðild. Það var mjög athyglisvert. Þetta er mjög athyglisverð ræða og ætti að fara í sögubækurnar. Ég hef margoft lesið hana, ég ætla ekki að lesa hana einu sinni enn.

Það vill svo til að á síðu 7 stendur um Rannsóknamiðstöð Íslands, sem heyrir undir hæstv. menningarmálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur sem er hæstv. ráðherra Vinstri grænna, með leyfi herra forseta:

„Lagt er til að rekstrargjöld hækki um 136 millj. kr. og sértekjur um sömu fjárhæð en þær koma allar frá útlöndum.“

Þarna tekur sagt ráðherra Vinstri grænna á móti fé frá Evrópusambandinu til alls konar verkefna í ráðuneyti sínu.

„Um er að ræða ný verkefni sem ekki hafa verið í fjárlögum, m.a. tekjur vegna rekstrarstyrks frá Evrópusambandinu[,] 78,3 millj. kr.“ sem renna til þessa verkefnis.

Svo stendur:

„Tillagan hefur ekki í för með sér breytingar á útgjaldaramma ráðuneytisins.“

Féð kemur inn og fer út aftur, það hefur sem sagt engin áhrif á tekjur ráðuneytisins.

Ég vildi vekja athygli á því, herra forseti, vegna þess að hér taka Vinstri grænir á móti peningum frá Evrópusambandinu inn í ráðuneyti sín. Þetta eru hæstv. ráðherrar Vinstri grænna og það finnst mér vægast sagt dálítið skrýtið.

Svo er það umhverfisráðuneytið. Þar eru nokkrir skrýtnir hlutir. Undir liðnum um Umhverfisstofnun, sem er beint undir ráðuneytinu, undir hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur sem hélt hina merkilegu ræðu í atkvæðaskýringu þegar við greiddum atkvæði um aðild að Evrópusambandinu, stendur, með leyfi herra forseta:

„Gerð er tillaga um 13,2 millj. kr. tímabundna fjárheimild í eitt ár til að ráðstafa styrk frá Evrópusambandinu vegna innleiðingar á vatna- og flóðatilskipun sambandsins.“

Er það ekki hámark þess sem menn geta lent í, gráglettni örlaganna? Hæstv. umhverfisráðherra lendir í fyrsta lagi í því að hún vinnur kosningarnar með því að vera á móti Evrópusambandinu. Hún sækir síðan um aðild að Evrópusambandinu með gnístandi tönnum, samkvæmt þessari frægu atkvæðaskýringu. Svo lendir hún í því að stofnanir innan ráðuneytis hennar þiggja peningagjafir frá Evrópusambandinu til þess að standa undir rekstri. Mér finnast örlögin vera að glettast með hæstv. ráðherra.

Síðan kemur fram um Náttúrufræðistofnun á síðu 68 — og Náttúrufræðistofnun heyrir náttúrlega líka undir hæstv. umhverfisráðherra, með leyfi forseta:

„Lögð er til 9,1 millj. kr. lækkun á heimild til að ráðstafa styrk frá Evrópusambandinu til verkefnisins NATURA 2000. Í frumvarpinu er tillaga um 148 millj. kr. fjárheimild en breytt áætlun um dreifingu greiðslna og styrking á gengi krónunnar frá því að fyrri áætlun var gerð veldur því að framlag lækkar í 138,9 millj. kr.“

Sem sagt þessir peningar nýtast betur vegna þess að krónan er að falla og þess vegna er hægt að lækka framlagið um 9,1 millj. kr. En fram kemur í greininni að stofnun umhverfisráðherra þiggur mikla peninga frá Evrópusambandinu í rekstur sinn og hefur væntanlega ekki áhrif á rekstur hennar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu af því að féð fer bæði út og inn, inn sem tekjur frá Evrópusambandinu og út sem gjöld. Þetta er allt að því meinhæðið, herra forseti.

Nú er tími minn að verða búinn. Ég ætlaði rétt aðeins að tala um Veðurstofuna. Þar er sagt á síðu 69, með leyfi herra forseta:

„Gerð er tillaga um 42,8 millj. kr. tímabundna fjárheimild í eitt ár til að ráðstafa styrk frá Evrópusambandinu vegna innleiðingar á vatna- og flóðatilskipun sambandsins.“

Aftur er verið að taka á móti gjöfum frá Evrópusambandinu til að setja inn í rekstur á stofnunum umhverfisráðuneytisins.

Ég vildi koma þessu að, herra forseti, vegna þess að mér finnst Vinstri grænir leika tveimur skjöldum í þessu máli. Þeir þóttust vera á móti Evrópusambandinu og eitt af því fyrsta sem þeir gerðu var að sækja um aðild. Þeir þóttust vera á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og eitt af því fyrsta sem þeir gerðu var að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þeir urðu meira að segja elsku vinir þeirra. Það var ýmislegt fleira sem þeir gerðu og sem þeir lofuðu í aðdraganda kosninganna og unnu kosningasigur út á, en svo kemur í ljós að það stendur ekki steinn yfir steini.