141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annaðhvort hefur hv. þm. Birgir Ármannsson ekki heyrt alla ræðuna mína eða ég ekki talað nógu skýrt. Ég lagði einmitt áherslu á að hið sama gilti um löggæslu hringinn í kringum landið og hér á höfuðborgarsvæðinu. Varðandi það mat okkar að 500 milljónir þyrfti til þá var það tilvísun til þess sem við höfum verið að leggja til á liðnum árum. Ég tók jafnframt undir það að til að standa undir nauðsynlegri grunnþjónustu væru 300 milljónir sennilega lágmark. Ég get þess vegna fellt mig við það, við þær aðstæður sem uppi eru í dag, að við reynum alla vega að tryggja að við náum þó með þessum umræðum að sannfæra meiri hlutann um að nauðsynlegt sé að setja slíka upphæð í löggæsluna.

Nú er ég ekkert viss um að okkur takist það. Það verður að segjast eins og er að ekki eru margir í meiri hlutanum til að taka þátt í þessari umræðu með okkur eða hlusta og deila sjónarmiðum sínum hvað það varðar. Ég hef satt best að segja ekki heyrt einn einasta meirihlutamann eða hæstv. ráðherra koma hingað upp og taka undir það að löggæslan sé í þeim kröggum að nauðsynlegt sé að setja þessa fjármuni inn. Hér varð þó umræða um daginn, sérstök umræða, þar sem hæstv. innanríkisráðherra viðurkenndi að verulegur skortur væri á fjármunum til löggæslunnar, að niðurskurður hefði gengið mjög langt. Ég gat ekki betur heyrt en að í kjölfarið á því, meðal annars í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hefði slíkum sjónarmiðum verið hreyft.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þingmanni, að ekki er alltaf hægt að horfa til íbúafjölda. Skaftárhreppur er til að mynda eitt af fámennustu svæðum landsins en þarf að dekka 7% af landsvæðinu. (Forseti hringir.) Ef við förum á enn þéttari ferðamannastaði þarf löggæslan að dekka gríðarlegan ferðamannafjölda.