141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta en ég þekki sjónarmið hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Þar sem hann situr í fjárlaganefnd kom mér á óvart að þess sæi ekki stað í tillögum meiri hlutans. Ég ber þar af leiðandi nokkurn kvíðboga fyrir því að sjónarmið hans og okkar hafi orðið undir í nefndinni. Ef formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, hefur jafnframt viðrað slíkar skoðanir verð ég eiginlega enn meira undrandi á því að þess sjái ekki stað í frumvarpinu nú þegar. Ég átta mig ekki á því af hverju menn eru að bíða fram til síðustu stundar með að koma með slíka leiðréttingu, af því að stærðargráðan er svo há.

Ég tek undir það að þetta gildir um allar löggæslustöðvar landsins, hvort sem þær eru á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi. Sums staðar, eins og hv. þingmaður nefndi, þar sem mikið fámenni er getur síðasti niðurskurðurinn vissulega reynst mjög dýrkeyptur.