141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:10]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur bryddað upp á atriðum sem skipta miklu máli. Það er auðvitað svo að stór hluti stjórnsýslu landsins er í uppnámi og í hers höndum. Fremst í flokki fer hæstv. ríkisstjórn hlaðin doða og sinnuleysi. Nokkur atriði sem hv. þingmaður minntist á, til að mynda heilbrigðisstofnanir og löggæslan, eru í ótrúlega veikri stöðu og máttlítilli.

Gott dæmi er sýslumannsembættið í Árnessýslu. Þar eiga að vera 36 lögreglumenn samkvæmt lágmarkskröfum. Þeir eru 24 og stefnir í að þeir verði 20. Þetta gengur ekki, það er bara svo einfalt.

Hv. þingmaður vék að Hólmsheiði, að það væri kostur og jákvætt að byggja þar upp. Ég held að það sé rangt, ég vil spyrja hv. þingmann aðeins út í það. Bygging á Hólmsheiði er feikilega dýr bygging með tiltölulega litlum húsakosti fyrir þá þjónustu sem þar á að vera. Það er engin spurning að það er hagstæðast fyrir þjóðfélagið og skynsamlegast að byggja upp við þá einingu sem er við Eyrarbakka á Litla-Hrauni. Það er staður sem er öflugur fyrir og þarf að styrkja og þessi fyrirsláttur, að of langur tími fari í að keyra menn á milli höfuðborgarinnar og Eyrarbakka, er ekki marktækur vegna þess að það munar 15–20 mínútum hámark hvort keyrt er úr miðborginni upp á Hólmsheiði eða til Eyrarbakka.

Þetta þarf að (Forseti hringir.) taka upp og gera af skynsemi en ekki að einhverjum (Forseti hringir.) sérfræðingahætti.