141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:14]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson segir, að þessi staða eins og hún er gengur ekki. Það verður að leysa þessi mál á annan hátt en reiknað er með. Á sama tíma og hv. ríkisstjórn er með alls konar gæluverkefni, nýja hluti, dýra og kostnaðarsama, hvort sem það er grænt hagkerfi, íslenskt fræðasetur, sem er fín hugmynd en hún er bara ekki tilbúin á dagskrá í stöðunni eins og hún er, og heilbrigðiskerfið eins og það er, ruggar á barmi hengiflugs ef horft er á stöðuna gagnvart hjúkrunarfræðingum, sem eru lykilstarfsmenn á sjúkrahúsunum. Þetta eru hlutir sem verður að taka til hendinni við og þýðir ekkert að láta skripla á skötu í þeim efnum. Það verður að taka fast á og klára málin.