141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég kom örstutt upp áðan undir liðnum fundarstjórn forseta. Þá var reyndar annar forseti í stólnum, það er um klukkustund síðan, og þá spurðist ég fyrir um hvort hægt væri að gera hæstv. innanríkisráðherra viðvart því að ég ætlaði mér að ræða ákveðin mál sem tengjast málefnum innanríkisráðuneytisins. Það eru málefni sem tengjast ríkissaksóknara, lögreglunni og síðan umræðu um millidómstig. Ég sé hvergi í fjárlagafrumvarpinu nokkra tilburði til að koma til móts við þá skýru kröfu sem gerð er varðandi réttarríkið Ísland, að við getum komið hér upp millidómstig. Mér þætti því forvitnilegt að vita hvort hæstv. innanríkisráðherra hafi séð sér fært að koma hingað til móts við þingheim í þessari umræðu.

(Forseti (SIJ): Eins og hv. þingmaður minntist á var sá sem hér stendur ekki forseti þegar fyrirspurnin var borin fram og getur því ekki upplýst það en mun kanna hvernig mál standi og hvort hæstv. innanríkisráðherra sé væntanlegur.)

Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir og ef ekki er hægt að ná í hæstv. innanríkisráðherra eru önnur málefni sem væri vert að ræða við hæstv. velferðarráðherra. Ef menn vilja fá upplýsingar um hvaða málefni ég ætla að ræða við hæstv. velferðarráðherra er það annars vegar fæðingarorlofið, sem er búið að leggja fram og samþykkja af hálfu ríkisstjórnarinnar eftir að við lögðum fram fjárlagafrumvarpið, og síðan málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss og þá gríðarlega alvarlegu stöðu sem háskólasjúkrahúsið er komið í, m.a. vegna uppsagna hjúkrunarfræðinga. Í þriðja lagi eru það málefni St. Jósefsspítala. Væri hægt að gera hæstv. velferðarráðherra viðvart? Ég þarf ekki svör núna en beini því til hæstv. forseta að hæstv. velferðarráðherra verði einnig gert viðvart um að koma til umræðunnar.

Ég efa ekki að ef þeir ráðherrar sem og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem sjá um ákveðna málaflokka, fagmálefnin, svo ég tali nú ekki um hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, mundu nú einu sinni koma hingað upp í pontu og svara ýmsum ábendingum og fyrirspurnum sem við höfum verið að leggja fram í umræðunni þá væri það til bóta. Það er hefð fyrir því og ég hef vanist því við þessa umræðu bæði sem ráðherra, undir þeim hatti, en líka sem þingmaður, að hæstv. ráðherrar taki saman fyrirspurnir, sitji undir ákveðnum fyrirspurnum og komi síðan upp við umræðuna, stundum í lok hennar, og svari þeim vangaveltum og fyrirspurnum sem þingmenn hafa, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, um málefni hinna ýmsu fagráðuneyta. Af nægu er að taka svo vægt sé til orða tekið þegar kemur að þeirri grundvallarþjónustu sem við við viljum að sé staðið vel að, hvort sem það er lögreglan, menntakerfið eða heilbrigðis- og félagsmálakerfið. Það er önnur saga og ég vonast til að þeim ráðherrum verði gert viðvart hvað það varðar.

Hæstv. forseti. Það verður satt best að segja að viðurkennast að umræðan í dag fór ekki mjög burðuglega af stað þegar hæstv. ráðherra, og vel að merkja atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, kvaddi sér hljóðs, ekki undir liðnum fjárlög, 2. umr., heldur betur ekki. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra setti mál sitt fram með, að mínu mati, nokkuð ógeðfelldum hætti og ég ætla nú ekki einu sinni að tala um sjálfsupphafninguna sem kom fram í máli hans. Hann var enn og aftur, ég held að það sé um það bil þriðja, fjórða eða fimmta tilraun einmitt þessarar ríkisstjórnar, að reyna að binda endi á málfrelsi okkar í stjórnarandstöðunni. Ég held að það verði ekki of oft undirstrikað: Sá stóll sem er hér á Alþingi Íslendinga, elstu löggjafarsamkomu í heimi, er okkar tæki. Það er mikilvægasta tæki hvers þingmanns að geta tjáð sig um mikilvæg mál, stór sem smá. Að geta komið hingað og rætt málin, tjáð sínar skoðanir og fengið oftar en ekki svör við ákveðnum spurningum af hálfu ráðherra. Það var aumkunarvert að fylgjast með uppákomunni af hálfu hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Þegar hann talar um einsdæmi í sögunni vil ég nú segja að aldrei nokkurn tíma í sögunni hefur stjórnarandstaðan átt við, á hvaða tíma sem er, aðra eins ríkisstjórn og þá sem þessi stjórnarandstaða þarf að kljást við. Hún er algjört einsdæmi, ríkisstjórn Íslands, og ég vona að hún verði algjört einsdæmi.

Að mínu mati var þetta ömurleg og grímulaus tilraun. Enn ein tilraunin, eins og ég gat um áðan, af hálfu ríkisstjórnar Íslands, forustumanna stjórnmálaflokka sem hafa ekki verið hérna í tvö, þrjú ár. Það er hægt að fyrirgefa aumkunarverðar ábendingar þingmanna sem hafa verið hér í eitt, tvö, þrjú eða fjögur ár og koma ekki einu sinni hingað upp í stólinn heldur blogga bara úti í bæ og þá getum við lesið skoðanir þeirra á þinginu í staðinn. Við erum að tala um ráðherra í ríkisstjórn, forustumenn í ríkisstjórn, sem hafa verið hér í ein 30 ár. Ég held að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon eigi núna 30 ára afmæli. Það er nú ekki skemmtilegt að halda upp á afmælið svona og hæstv. forsætisráðherra hefur náttúrlega verið hér lengur.

Þess vegna er hálfnöturlegt að upplifa tilraunir þeirra til að takmarka málfrelsi þingmanna. Eins og ég hef sagt áður erum við ekki að tala um stærð og þyngd á lyfjaglösum eða teygjum eða uppbyggingu akuryrkju á landinu. Við erum að tala um fjárlög Íslands þar sem liggur fyrir stefnumótun ríkisstjórnar hverju sinni í stórum og merkilegum málum. Þess vegna er alveg ótrúlegt að upplifa að til að mynda atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem er yfirmaður bankamála, sjávarútvegsmála, landbúnaðarmála, atvinnumála almennt og iðnaðarmála, skuli ekki hafa komið hingað í salinn og tjáð sig um hvaða áhrif frumvarpið hefur á heimilin í landinu, atvinnulífið í landinu og á samfélagið almennt.

Það er alveg ótrúlegt að menn skuli ekki hafa komið hingað upp til að tjá sig um þau málefni. Það hefur margoft komið fram af hálfu þingmanna sem hafa til dæmis bent á hvaða skoðanir Samtök atvinnulífsins hafa á frumvarpinu en að mati þeirra er, með leyfi forseta, fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 ögrun við fyrirtækin í landinu og starfsfólk þess. Til standi að hækka tryggingagjald þannig að fyrirtækin fái ekki að njóta lækkaðra útgjalda til atvinnuleysistrygginga líkt og gert hafi verið ráð fyrir í gerð kjarasamninga vorið 2011. Verið er að benda á enn eitt svikið loforð ríkisstjórnarinnar.

Síðan er haldið áfram, með leyfi forseta:

„Fyrirvaralaus þreföldun virðisaukaskatts á gistiþjónustu“, búið að lækka hana aðeins en engu að síður margföld hækkun, „mun kollvarpa áætlunum ferðaþjónustunnar fyrir næsta ár. Viðskipti við erlend ferðaþjónustufyrirtæki eru sett í uppnám og greininni er gert erfitt fyrir að standa undir þeirri fjárfestingu sem ráðist var í í kjölfar markaðsátaks erlendis sem stutt var af stjórnvöldum. Hækkun vörugjalda á bílaleigubíla er önnur alvarleg atlaga að ferðaþjónustunni“, segir meðal annars í yfirlýsingu Samtaka atvinnulífsins þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram.

Svo heldur áfram: Þá eru síhækkandi álögur á fjármálafyrirtæki gagnrýndar og bent á að þær bitni fyrst og fremst á viðskiptavinum fyrirtækjanna í formi hærri vaxta og þjónustugjalda, eins og heimilin í landinu og fyrirtækin megi við því, og eru ekki til þess fallnar að örva fjárfestingar, fjölga störfum og stækka skattstofna sem ætti að vera meginviðfangsefni og markmið stjórnvalda.

Ég vil taka sérstaklega undir þau orð Samtaka atvinnulífsins. Ég vil einnig benda á ábendingar Samtaka atvinnulífsins um álagningu vörugjalda á matvæli sem hefur leitt til 800 millj. kr. skattahækkunar samkvæmt frumvarpinu. Enn ein atlaga ríkisstjórnarinnar sem hefur slegið slöku við að koma upp skjaldborg fyrir heimilin og leysa fjárhagsvanda íslenskra heimila. Þótt hún hafi sýnt ákveðna viðleitni hefur hún samt slegið slöku við. Þess í stað er verið að fara leiðir í fjárlagafrumvarpinu sem stuðla að því að hækka lán hjá heimilum og fyrirtækjum. Hvað þýðir það? Erfiðari og þyngri greiðslubyrði fyrir heimilin í landinu og líka minna umleikis hjá fyrirtækjunum til þess einmitt að fara í fjárfestingar, skapa þannig störf og reyna að stuðla að verðmætaaukningu í landinu.

Það kom fram í máli hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í upphafi þingfundar undir liðnum Störf þingsins, að frumvarpið væri svo stórkostlegt frumvarp. Frumvarp sem hefur hrikaleg áhrif á heimilin og fyrirtækin í landinu. Frumvarp sem ekki einu sinni ráðherrar í ríkisstjórn vilja eða þora að ræða við okkur hér í stjórnarandstöðunni við 2. umr. fjárlaga. Það er skammarlegt.