141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég nefndi löggæslumálin sérstaklega í síðustu ræðu minni og tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að ástæða væri til að ræða þau mál við hæstv. innanríkisráðherra. Vonandi verða tækifæri til þess síðar við umræðuna. Sá hæstv. ráðherra hefur líka á sínum snærum málefni kirkjunnar sem ekki hafa mikið verið rædd við umræðuna þótt vissulega hafi verið minnst á fjárhagsmálefni kirkjunnar. Ekki eru margar vikur síðan ég átti samræður í sérstakri umræðu við hæstv. innanríkisráðherra um málefni kirkjunnar og vísaði þar m.a. til ákvæða í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir áframhaldandi skerðingu á framlögum til kirkjunnar, annars vegar framlögum til þjóðkirkjunnar á grundvelli samkomulags frá 1997 og svo hins vegar varðandi sóknargjöld sem enn þá eru í þeim farvegi að gjöld til trúfélaga eru innheimt af landsmönnum samhliða skattálagningu en þau ekki renna þó að öllu leyti til þess safnaðar sem um er að ræða. Er enn um gjaldtöku af borgurunum að ræða undir þeim formerkjum að hún sé ætluð til að standa straum af safnaðarstarfi annars vegar í sóknum þjóðkirkjunnar og hins vegar í öðrum trúfélögum, en ríkið velur að taka hluta af þeirri fjárhæð til sín.

Það er skemmst frá því að segja að nú, milli 1. og 2. umr. málsins í þinginu, hefur engin breyting orðið á því, þ.e. þær skerðingar sem fram koma á þessum tveimur liðum, annars vegar framlögum til þjóðkirkjunnar og hins vegar á sóknargjöldunum, eru látnar standa óbreyttar. Bæst hefur við að í bandorminum svokallaða sem dreift var í þinginu fyrir helgi voru lagðar til lagabreytingar til að staðfesta þau áform sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu hvað þetta varðar. Auðvitað getum við rætt það nánar þegar kemur að bandorminum, en hins vegar er líka nauðsynlegt að fjalla um það við fjárlagaumræðuna. Hér er auðvitað um fjárlagatengt mál að ræða þótt sú starfsemi sem fram fer á vegum þjóðkirkjunnar annars vegar og safnaða eða trúfélaga hins vegar sé eðli málsins samkvæmt ekki hluti af rekstri ríkisins, heldur sjálfstæð starfsemi. Þó að sá háttur hafi verið valinn fyrir alllöngu síðan að sóknargjöld skyldu innheimt með sköttum er ekki um eiginlegan skatt að ræða, þetta er ekki hluti af skattheimtu ríkisins, þetta eru í raun og veru félagsgjöld til safnaðanna en ekki skattur sem ríkið innheimtir og skammtar til þjóðkirkjunnar eins og hún væri einhver stofnun á vegum ríkisins, það er ekki svo. Og svo byggja framlögin til þjóðkirkjunnar, á grundvelli laganna frá 1997 og jarðasamkomulagsins milli ríkis og kirkju frá þeim tíma, auðvitað á allt öðrum grunni.

Eins og hv. þingmenn þekkja var gert víðtækt samkomulag milli ríkis og kirkju 1997 um fjárhagsleg málefni sem fól m.a. í sér að ríkið varð eigandi að kirkjujörðum en tók í staðinn að sér að greiða fjárhæðir til þjóðkirkjunnar til að standa straum af launagreiðslum til presta, sem líta mætti á sem einhvers konar arð af þessum jörðum. Þarna var um að ræða samning, samkomulag, sem átti annars vegar að undirstrika það að þjóðkirkjan væri sjálfstæð í fjárhagslegum málefnum, en á hinn bóginn var fjármögnun starfsemi hennar tryggð með nokkrum hætti á grundvelli þess að hún afsalaði sér eignum sem sannarlega voru eignir hennar til ríkisins. Þarna var því um gagnkvæmt samkomulag að ræða þar sem báðir aðilar afhentu verðmæti og fengu önnur verðmæti til baka.

Eins og málið lítur út núna eru bæði fjárlagafrumvarpið og bandormurinn sem nú er væntanlegur einhvers konar einhliða breyting á þessum samskiptum ríkis og kirkju.

Ég innti hæstv. innanríkisráðherra eftir því við umræðuna snemma í nóvember hvort viðræður væru í gangi við kirkjuna vegna þessa því að vísað er til þess í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu að nauðsynlegt sé að ræða endurskoðun á samkomulagi ríkis og kirkju hvað þetta varðar. Hæstv. ráðherra gaf ekki mikið út á það en sagði það eitt að hann og ráðuneyti hans væri reiðubúið til viðræðna ef eftir því væri leitað. Mér er ekki kunnugt um að neinar slíkar viðræður hafi farið fram. Hvað sem líður afstöðu hæstv. innanríkisráðherra og ráðuneytis hans, sem fer með málefni kirkjunnar í verkaskiptingu Stjórnarráðsins, virðast ákvarðanir fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytisins og síðan ríkisstjórnarinnar í heild vera byggðar á allt annarri stefnu en þeirri sem hæstv. innanríkisráðherra lýsti í umræðunum í þinginu. Það vekur miklar spurningar.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það að sá fjárhagslegi samdráttur sem kirkjan hefur orðið að taka á sig á síðustu árum hefur verið tilfinnanlegur. Ég hef áður sagt við umræður í þinginu að kirkjan hefur sýnt ákveðið langlundargeð og þolinmæði gagnvart ríkisvaldinu vegna framkomu þess í garð kirkjunnar út af þessum fjárhagslegu málefnum. Ég áfellist ekki kirkjuna fyrir það. Hún hefur sýnt skilning á því að fjárhagslegir erfiðleikar hafa verið í landinu og verið hafa erfiðir tímar í rekstri ríkissjóðs, en engu að síður hafa kirkjunnar menn, bæði prestar og fulltrúar leikmanna, risið upp núna í haust og mótmælt því að þessi skerðing eigi sér stað áfram vegna þess að þarna er gengið nærri þeirri starfsemi sem kirkjan rekur, sem sóknirnar reka. Ég tek fram að það á að mörgu leyti við um önnur trúfélög þó að kirkjan sé auðvitað langstærst í því samhengi.

Kirkjan hefur sýnt langlundargeð í þessum málum en tilfinning mín er sú að það langlundargeð sé eiginlega að þrotum komið vegna þess að í staðinn fyrir að ríkið láti af ásælni sinni í fjármuni kirkjunnar virðist það ekki vera raunin, sú ásælni heldur bara áfram þrátt fyrir yfirlýsingar um að betri tímar séu fram undan í fjármálum ríkisins og þrátt fyrir að stjórnarliðar komi hér hver upp á fætur öðrum og hrósi sjálfum sér fyrir mikinn árangur í ríkisfjármálum. Það skýtur mjög skökku við þegar, eins og margoft hefur verið bent á í umræðunni, nægir fjármunir virðast vera fyrir hendi til ýmissa verkefna sem njóta sérstakrar náðar fyrir augum ráðherra og þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, sérstaklega ef hægt er að kenna þau við grænt hagkerfi eða menningarmál.