141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[02:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni í ræðu minni það sem blasir við okkur og hefur verið í fréttum á undanförnum dögum og kannski borið hæst í dag. Virðulegi forseti. Ég held að klukkan sé biluð hjá mér.

(Forseti (ÁÞS): Það kann að vera að klukkan sé biluð en við látum kanna það. Þingmaðurinn á að hafa 10 mínútur til umráða þó hann sé kominn í 10. ræðu. Við athugum hvort við getum komið þessu í lag.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að bregðast við því. Ég mun ekki vera í minni síðustu ræðu þannig að seint verður hægt að saka þann sem hér stendur um að sinna ekki sínu starfi enda veitir ekki af að vekja athygli á þeirri forgangsröðun sem birtist í fjárlögunum.

Mig langar að gera að umtalsefni það sem hefur blasað við okkur á undanförnum dögum og hefur komið fram í fréttum í kvöld, ástandið sem virðist vera á Landspítalanum þar sem 254 hjúkrunarfræðingar í 193 stöðugildum hafa sagt upp störfum sínum. Uppsagnirnar munu taka gildi 1. mars á næsta ári. Það er nokkuð athyglisvert viðtal við Eddu Jörundsdóttur á mbl.is, konu sem á að baki sex ára nám og hefur 11 ára starfsreynslu, og er það auðvitað umhugsunarefni þegar maður fer í gegnum þessa hluti. Í viðtalinu við þá ágætu konu, Eddu Jörundsdóttur, segist hún vera að íhuga að fara til Noregs þótt launin séu ekki nægilega há, hún sé ánægð í starfi og finnist Landspítalinn góður vinnustaður.

Síðan kemur skýringin, sem auðvitað blasir við, frá forsvarsmönnum Landspítalans og hún er sú að Landspítalinn hefur ekki nægt fjármagn til að endurnýja svokallaða stofnanasamninga við hjúkrunarfræðingana. Maður spyr sig, af því að það er boðað við 3. umr. fjárlaga og er 6. gr. heimildin í fjárlögunum að hefja byggingu á nýjum Landspítala, hvort það sé skynsamleg ráðstöfun að fara að byggja nýjan þegar við getum ekki mannað þann gamla. Þar hlýtur að þurfa að staldra aðeins við.

Síðan er líka mjög merkileg, og sannar enn eina ferðina það lýðskrum sem hv. stjórnarliðar eru oft með, svokölluð kynjuð fjárlagagerð og kynjuð hagstjórn. Í hverju felst hún? Hún felst í því að starfsfólk er ráðið í ráðuneytin til að skrifa skýrslur og hræra í pappír og í það er eytt hellingsfjármunum, tugum milljóna. Á sama tíma er verið að reka konurnar út af vinnustöðunum, heilbrigðisstofnunum, hvort sem það er eins og í þessu tilfelli gagnvart hjúkrunarfræðingunum á Landspítalanum eða þegar E-deildinni var lokað á Akranesi sem voru síðustu afrekin við fjárlagagerð fyrir árið 2012. Það er haldið áfram á sömu braut endalaust. Það er kannski enn þá furðulegra þegar menn fara að velta því fyrir sér að, og ég held að maður geti eiginlega fullyrt það, meiri hluti starfandi hjúkrunarfræðinga er kvenfólk.

Þá kemur í breytingartillögum meiri hlutans sérstök tillaga um 15 millj. kr. fjárheimild til að standa straum af kostnaði við að ráða tvo sérfræðinga til þess einmitt að fara yfir það sem hefur komið svo oft fram á undanförnum missirum. Stofna á sérfræðingateymi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu til að aðstoða við launagreiningar og innleiðingu jafnlaunastaðla um launarétt milli kynjanna. Þarna er útgjaldatillaga til að standa straum af því en síðan eru verkin svona. Það gefur auðvitað augaleið fyrir allt hugsandi fólk að það gengur ekki saman. Það kemur í ljós enn eina ferðina hvað verið er að gera. Það hefur komið fram í svörum hv. þingmanna hvað uppsagnirnar hafa í raun og veru bitnað mikið á konum umfram karla. Það er auðvitað sú kynjaða fjárlagagerð og kynjaða hagstjórn sem birtist í verki. Ég efast um að hv. stjórnarþingmenn margir hverjir trúi því þegar þeir tala þannig.

Í ljósi þess, eins og ég hef vakið athygli á í umræðunni, að vegið er svona að grunnþjónustunni staldrar maður við. Það hefur komið fram og ég hef nefnt tvisvar, þrisvar, ef ekki oftar í ræðum þá aðgerð sem hefur verið gripið til af hálfu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands vegna fjárskorts, að loka Heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ aðra hverja helgi. Það sparar mjög litlar upphæðir en er gert eigi að síður og fólkinu gert að sækja heilbrigðisþjónustu í Grundarfjörð en þangað eru um 30 kílómetra vegalengd. Því miður er það oft þannig á þessum árstíma að það er ófært og illmögulegt að komast á milli.

Hvað er verið að gera á sama tíma? Margir hv. stjórnarliðar koma hingað og segja að þetta sé besta frumvarp sem hefur verið lagt fram, hér sjáist árangurinn og viðspyrnan og niðurskurðinum sé lokið. Á sama tíma er verið að leggja í ótrúlegar fjárfestingar, til að mynda byggingu húss íslenskra fræða þar sem áætlaður kostnaður er upp á 3,7 milljarða. Ég ítreka áætlaður kostnaður því reynslan er sú hjá ríkinu að kostnaðaráætlanir standast oft og tíðum ekki nægilega vel.

Hvað skyldi vera gert þegar búið er að loka heilsugæslustöðvunum og deildum á Landspítalanum? Á þá að fara með sjúklingana í hús íslenskra fræða? Er það tilfellið? Það sést í raun og veru og endurspeglast hér hversu veruleikafirringin er oft og tíðum mikil þegar menn eru að fara yfir þá hluti.

Það er auðvitað ekkert gagn að því að byggja hús íslenskra fræða. Það er engin skynsemi og alger vitleysa og bruðl. Á sama tíma er verið að vega að grunnþjónustu og grunnstoðum landsins. Forsvarsmenn Landspítalans og starfsfólk hans á heiður skilið fyrir að hafa staðið af sér niðurskurðinn sem hefur orðið á stofnuninni og allar aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu hafa líka staðið sig einstaklega vel. En svo þegar rofar til að mati hv. stjórnarliða fara menn í svona gæluverkefni sem er auðvitað ekkert annað bruðl og vitleysa og þvæla.

Síðan er líka athyglisvert að ef ekki væri byrjað að byggja hús íslenskra fræða, sem á að taka þrjú ár, væri kannski hægt að fara með sjúklingana á sýninguna á Náttúruminjasafninu sem á að vera sett upp á næsta ári og tekur auðvitað styttri tíma. Í þá framkvæmd eru settar 500 millj. kr. Ég spyr mig að því hvers konar vitleysa það sé eiginlega? Hvers konar rugl er það? Á sama tíma og við getum ekki hlúð að innviðum samfélagsins og grunnþjónustunni förum við í svona framkvæmdir. Þess vegna nota ég orðin hálfgerð veruleikafirring.

Hver skyldi vera röksemdin fyrir og grunnurinn að ákvarðanatöku Alþingis þegar hv. þingmenn greiða atkvæði? Hér kemur fram að veita á 500 millj. kr. í að setja upp sýningu í leiguhúsnæði á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Það sem er enn þá athyglisverðara er það sem stendur þar fyrir neðan: Þar sem aðgangseyririnn á að standa undir leigu og rekstri. Er það virkilega svo að einhver trúi þeirri vitleysu? Það er að minnsta kosti óhætt að segja að hægt sé að efast stórlega um það því að á sama tíma og þær tillögur eru inni af hálfu meiri hlutans er gert ráð fyrir því að setja 400 millj. kr. til viðbótar til að reyna að standa undir rekstrinum á Hörpu. Það er auðvitað furðulegt að það skuli hafa verið sett fram. Hvaða forsendur hafa hv. þingmenn til að leggja mat á það, ef þeir hefðu nú áhuga á því? Það eru engar upplýsingar sem liggja fyrir heldur bara textinn hér og ekkert annað, engar áætlanir. Bara 500 millj. kr. í svona á sama tíma og verið er að hrekja hjúkrunarfræðingana út af Landspítalanum til Noregs og síðan öll afrekin sem hafa verið unnin af hæstv. ríkisstjórn með því að reka konurnar út af sjúkrastofnunum, það eru ekki boðleg vinnubrögð. Það þarf ekki fleiri sérfræðinga til að hræra í pappír inni í ráðuneytum, til að skrifa skýrslu um hvað gerist þegar menn fara í svona vegferð. Það sjá það allir fyrir. Það væri nær að setja þær milljónir og tugi milljóna sem fara í þá vitleysu, sem er auðvitað ekkert annað lýðskrum, í það einmitt að styðja og styrkja við grunnstoðirnar í þeim stofnunum. Það væri auðvitað miklu skynsamlegra að gera.

Nei, það skal enn haldið áfram þrátt fyrir öll mótmælin í gegnum tíðina. Það blasir auðvitað við ef hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn vill horfast í augu við staðreyndir, sem maður stórefast um.

Hæstv. forseti. Þetta mun elta ríkisstjórnarflokkana uppi í kosningunum nú í vor.